Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hekdur til Norður-Kóreu í dag í tveggja daga opinbera heimsókn. Þetta er í fyrsta skipti í 24 ár sem Pútín heimsækir landið umdeilda en það gerði hann síðast árið 2000, fjórum mánuðum eftir að hann tók við sem forseti Rússlands.
Endurgeldur Pútín þar með opinbera heimsókn Kim Jong-Un til Rússlands sem átti sér stað í september á síðasta ári.
Talið er að mikið verði um dýrðir í höfuðborginni Pyongyang en gervihnattamyndir benda til þess að gríðarlega skrúðganga sé í undirbúningi til heiðurs Rússlandsforseta.
Heimsóknin Pútíns nú þykir benda til aukins samstarfs landanna en Bandaríkin, Suður-Kórea og fleiri lönd hafa sakað Norður-Kóreu um að skaffa Rússum vopn í stríðinu gegn Úkraínu. Bæði Rússsa og Norður-Kóreumenn hafa vísað þeim ásökunum á bug.
Í frétt sem birtist í norður-kóreska ríkismiðlinum KCNA var haft eftir Pútín að löndin myndu saman berjast gegn viðskiptaþvingunum Vesturlanda og þróa með sér óháðar leiðir til þess að stunda viðskipti.
Bandaríkjamenn eru uggandi yfir ferðinni og yfirlýsingum um aukið samstarf landanna. Í viðtali við CNN sagði Jim Himes, fulltrúardeildar þingmaður Demókrata, að ferðin benti til örvæntingar Pútíns og hefði á sér „yfirbragð sturlunar“.