Brynjar skrifar á Facebook:
„Tækifærismennska og vinsældarvagnahopp hefur verið mjög áberandi í íslenskri pólitík síðasta áratuginn eða svo. Hefur verið að mestu bundin við flokka sem telja sig til vinstri og uppfulla af manngæsku og réttlæti.“
Öðru gildi þó um flokk eins og Flokk fólksins sem Brynjar segi snúast um bara eina manneskju, formanninn Ingu Sæland og bara eitt málefni. Brynjar segir að í grein Ingu í Morgunblaðinu í dag sé um mikið af rangfærslum og staðreyndavillum. Sá flokkur megi því fagna því að ekki séu til viðurlög við upplýsingaóreiðu og falsfréttir.
„Málflutningur populistaflokka er og hefur alltaf verið eins. Aðrir eru spilltir, óheiðarlegir og uppfullir af mannvonsku. En ágætt er að rifja það upp með kjósendum að þegar populistaflokkar hafa náð völdum keyra þeir samfélögin undantekningarlaust í þrot.“
Brynjar segir að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sé að reyna að draga úr tækifærismennsku og upphlaupsmenningu sem hafi einkennt starf flokksins undanfarin ár. Það gangi þó ekki áfallalaust hjá Kristrúnu eins og hafi sést í gær þegar Þorbjörg Þorvaldsdóttir bæjarfulltrúi í Garðabæ sagði sig úr flokknum. Brynjar segir það daglegt brauð að vera ósammála flokki sínum í tilteknum málefnum. Slíkt kalli þó ekki á upphlaup á borð við það sem Þorbjörg hafi staðið fyrir. Samfylkingin geti því fagnað því að þessir aðilar séu að hreinsa sig sjálfir af listum flokksins. Brynjar segir að það sé annar flokkur á þingi sem geti tekið við þessu upphlaupsfólki og þó hann nefnir ekki hvaða flokkur það er má ráða af fyrri skrifum Brynjar að þar vísar hann til Pírata.
„Nýi formaður Samfylkingarinnar hefur reynt að draga úr þessari tækifærismennsku og upphlaupsmenningu, sem var allsráðandi þar á bæ. Það hefur gengið brösuglega og reglulega eru uppsagnir úr flokknum. Síðast sagði bæjarfulltrúi í Garðabæ sig úr flokknum vegna þess að þingflokkurinn greiddi ekki atkvæði gegn útlendingafrumvarpinu. Ef ég hugsaði eins og bæjarfulltrúinn væri ég búinn að segja mig hundrað sinnum úr Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin má vera fegin að losna við þetta fólk og svo er til flokkur á þingi, sem veit ekkert fyrir hvað hann stendur og hýsir einkum upphlaupslýð ótengdan raunveruleikanum, sem getur tekið við þeim.“