Bikblæðingar voru á vettvangi rútuslyssins sem varð við Fagranes í Öxnadal fyrr í dag, eins og sjá má á myndum RÚV.
Heimildamaður DV sagðist hafa keyrt veginn fyrr í dag og sagði að allur kaflinn þar sem slysið varð hefði verið „ein stór tjörudrulla“, sagðist viðkomandi hafa verið í mestu vandræðum með að stýra bílnum á þessum kafla.
Sjá einnig: Rútuslys á Öxnadalsheiði – Hópslysaáætlun virkjuð
Athugasemdir um bikblæðingar eru einnig við færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook:
„Kl 7 i morgun var blæðing.“
„Fór þarna um í dag fyrir þetta og það eru rosalegar blæðingar úr malbikinu allveg frá Engimýri og upp á Öxnadalsheiði.“
Í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar hafa farið fram umræður um slysið og möguleg tildrög þess. Þar segist einn hafa lent í bikblæðingu á veginum í fyrra og kvartað til Vegagerðarinnar en ekkert hafi gerst í málinu.
Á vef Vegagerðinnar má sjá að sandað var á kaflanum vegna tjörublæðinga, kaflinn merktur og hraði lækkaður í 70 km. Voru ökumenn beðnir að virða merkingar og aka eftir aðstæðum.
Ekki hefur komið fram um möguleg tildrög slyssins, en von er á tilkynningu frá lögreglu innan skamms.
Uppfært kl. 21.18:
Lögreglan vekur athygli á því að vegurinn um Öxnadal er enn lokaður og verður fram eftir nóttu. Vinna er enn í gangi á vettvangi
Hópur erlendra ferðamanna var í rútunni sem er með erlendu skráningarnúmeri. Samband er komið við erlendu ferðaskrifstofuna sem heldur utan um þessa ferð.
Flutningur er hafinn á slösuðum með sjúkraflugi og þyrlu LHG til Reykjavíkur. Nú þegar hafa 5 aðilar verið fluttir þangað og munu fleiri líklega verða fluttir suður síðar í kvöld eða nótt. Þá opnaði RKÍ fjöldahjálparstöð á Akureyri fyrir þolendur slyssins sem útskrifaðir hafa verið af Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Í þessu verkefni var Aðgerðastjórn á Akureyri virkjuð með fullri áhöfn sem og Samhæfingamiðstöðin í Reykjavík. Fulltrúar allra viðbragðsaðila á svæðinu komu að þessu, áhöfn Samhæfingamiðstöðvarinnar, Landhelgisgæslan og Landsspítalinn. Þakkar lögreglan öllum sem komu að verkefni þessu sem var mjög krefjandi og mikil áskorun.