Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mun klukkan 11:00 næstkomandi sunnudag 16. júní leiða sögugöngu um Þingvelli. Á Facebooksíðu forseta Íslands segir:
„Við fögnum nú 80 ára lýðveldisafmæli og um helgina er efnt til hátíðar á Þingvöllum af því tilefni. Sjálfur leiði ég sögugöngu með fjöldasöng á sunnudaginn klukkan 11:00 þar sem gaman væri að sjá sem flest ykkar. Ég hvet ykkur líka til að kynna ykkur þá fjölbreyttu dagskrá sem fram fer í þjóðgarðinum alla helgina. Skundum á Þingvöll!“
Gangan hefst frá gestastofunni á Haki klukkan 11. Rölt verður niður á Lögberg og þaðan á gamla Valhallarreitinn. Söngblaði verður dreift á staðnum og hvatt verður til fjöldasöngs. Viðburðurinn er öllum opinn og ókeypis. Þetta kemur fram á Facebooksíðu þjóðgarðsins á Þingvöllum.
Gangan mun standa yfir í um klukkustund.