fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Konan sem gekk upp í Leifsstöð, vegna skorts á almenningssamgöngum og okurverðs á leigubílum, komin í heimsfréttirnar og veldur áhyggjum

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 12. júní 2024 22:00

Göngutúr Macey hefur vakið heimsathygli og heitar umræður á Íslandi. Mynd/TikTok

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ferðasaga hinnar áströlsku Macey Jane sem nýlega sótti Ísland heim hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla. Eins og DV greindi frá í gær birti Macey myndband á Tik Tok af ferð sinni á Keflavíkurflugvöll. Gekk hún á flugvöllinn og sagðist hafa lagt af stað klukkan 4:30 að morgni. Sagði Macey að gangan hafi tekið um tvo klukkutíma og að hún hafi séð sig nauðbeygða til að ferðast með þessum hætti á flugvöllinn þar sem leigubíll hafi kostað um 30.000 krónur, Uber sé ekki til staðar á Íslandi og ekki hafi verið mögulegt að notast við almenningssamgöngur fyrr en klukkan 8. Hefur saga Macey vakið áhyggjur af neikvæðum áhrifum hennar á íslenska ferðaþjónustu og komið enn af stað umræðu um dapurt ástand almenningssamgangna frá Höfuðborgarsvæðinu að flugvellinum

Neitaði að borga rándýran leigubíl og gekk klukkutímum saman upp á Leifsstöð – „Engir uber eða almenningssamgöngur þangað til klukkan 8“

Í frétt Independent af göngu Macey kemur meðal annars fram að margir hafi í athugasemdum við myndbandið lýst furðu sinni á hversu lélegir kostir hafi verið í boði fyrir hana. Aðrir sem segjast hafa reynslu af Íslandsferðum benda á að hægt sé að ferðast með Flybus svo snemma að morgni og enn aðrir vilja meina að hafa ekki þurft að greiða svo hátt verð fyrir að taka leigubíl frá Reykjavík á flugvöllinn. Í fréttinni kemur fram að einn aðili segist hafa greitt eiganda Airbnb-íbúðarinnar sem viðkomandi gisti í fyrir að keyra sig á flugvöllinn um klukkan 5 að morgni. Macey segist hafa reynt þetta en eigandi íbúðarinnar sem hún gisti í hafi ekki tekið vel í það.

Misskilningur og of löng leið

Þess misskilnings virðist gæta meðal margra þeirra, meðal annars Íslendinga, sem lesið hafa fréttir af málinu og horft á myndband Macey að hún hafi þennan morgun ferðast frá höfuðborgarsvæðinu upp á Keflavíkurflugvöll. Á myndbandinu má hins vegar greinilega sjá að hún gengur frá Reykjanesbæ áleiðis til Leifsstöðvar.

Myndbandið byrjar ofarlega á Vesturgötu í Reykjanesbæ en ekki kemur fram hvar gönguferðin hófst nákvæmlega og hvort myndskeiðin í myndabandinu séu í réttri tímaröð. Sé röðin rétt er hins vegar ljóst að Macey hefur gengið of langa leið. Hægt er að ganga frá Vesturgötu beina leið að göngustíg við Norðurvelli og á honum er hægt að ganga alla leið upp í Leifsstöð. Ganga þessa leið á að taka um 30-40 mínútur en ekki tvo klukkutíma.

Óljóst er hvaðan Macey fékk þær upplýsingar að hún þyrfti að greiða um 30.000 krónur fyrir akstur með leigubíl frá Reykjanesbæ á flugvöllinn en undir venjulegum kringumstæðum kostar slík ferð um 3-5.000 krónur.

Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvers vegna hún hafi ekki tekið rútu Flybus á flugvöllinn en fyrirtækið býður ekki upp á ferðir frá Reykjanesbæ aðeins höfuðborgarsvæðinu. Macey segir að engar almenningssamgöngur hafi byrjað að ganga á flugvöllinn fyrr en klukkan 8 að morgni. Fyrsta ferð, leiðar 55 hjá Strætó, sem ekur frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar og kemur við í Reykjanesbæ í leiðinni, leggur af stað frá BSÍ klukkan 6:25 virka morgna og á að vera komin að Leifsstöð klukkan 7:38. Hafi Macey verið að ferðast á flugvöllinn á virkum morgni hefði hún því ekki komist fyrr þótt hún hefði beðið á biðstöð í Reykjanesbæ eftir leið 55.

„Hróður Íslands berst víða“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona og fyrrum forsetaframbjóðandi gerir ferðasögu Macey að umtalsefni í nýrri Facebook-færslu og segir hana til marks um einokun á samgönguleiðum til og frá Leifsstöð og lýsir áhyggjum af áhrifum ferðasögunnar:

„Hróður Íslands berst víða! Hverjir stýra og einoka samgönguleiðum til Keflavíkurflugvallar? Svo einstaklega ekki fyndið. Borgararnir verða bara að opna eigið rútufyrirtæki og það strax til að bjarga andliti þjóðarinnar. Íslensk gestrisni – sameignarfélag. Icelandic hospitality tours. Ég skal verða talsmaður þess.“

Nokkuð er rætt um göngu Macey í Facebook-hóp Samtaka um bíllausan lífsstíl. Þar lýsir til að mynda Björn Teitsson, sem hefur haft sig nokkuð frammi í umræðum um að auðvelda þurfi íbúum á Íslandi að lifa án þess að eiga bíl og er fyrrverandi formaður samtakanna, áhyggjum af áhrifum þess að gangan sé komin í heimsfréttirnar á íslenska ferðaþjónustu:

„Erlendir ferðamenn sjá að það er verið viljandi að hafa þá að fíflum. Og hætta að koma. Þetta er svo niðurlægjandi fyrir okkur sem þjóð. Hvenær ætla stjórnmálamenn að breyta þessu og færa okkur boðlegar almenningssamgöngur milli KEF og RVK. Og nei, er ekki endilega að tala um lest. Það væri hægt að laga strætó strax. Ekki að einu kostirnir séu einokunarfyrirtæki sem selur miða aðra leið á 4.000 (dýrasta gjald Evrópu) fyrir rútu, sem gengur ekki einu sinni eftir tímatöflu heldur eingöngu þegar búið er að pakka fólki eins og sardínum í ömurlega rútu, rándýr leigubíll eða bílaleigubíll. Þetta er hvergi svona nema á Íslandi. Þetta er skömm og verður að breytast. Fjölmiðlar, vaknið.“

Ekki eini kosturinn

Þess má geta að Flybus er ekki eini valkosturinn fyrir þau sem vilja ferðast frá Keflavíkurflugvelli til Höfuðborgarsvæðisins án þess að aka eigin bíl, leigja bíl af bílaleigu eða greiða fyrir ferð með leigubíl. Fyrirtækið Airport Direct býður upp á ferðir samkvæmt fastri tímatöflu fyrir svipað verð og Flybus. Einnig er hægt að ferðast með leið 55 hjá Strætó, samkvæmt tímatöflu, en fyrirtækið Hópbílar sér um akstur leiðarinnar í verktöku fyrir Strætó. Ferðin með leið 55 kostar um 2.200 krónur en leiðin er einnig hluti af almenningssamgöngum frá Reykjanesbæ til Höfuðborgarsvæðisins.

Eins og áður kom fram er hins vegar ekki mögulegt að ferðast með Strætó á flugvöllinn ef maður þarf að mæta í flug fyrir klukkan 7:30 að morgni á virkum degi og það er enn síður mögulegt um helgar.

Gerðar hafa verið athugasemdir undanfarin misseri við stöðu almenningssamgangna frá Höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkurflugvallar og mikið rætt nauðsyn þess að bæta þær. Lítið hefur hins vegar farið fyrir umræðu um almenningssamgöngur á milli Reykjanesbæjar og flugvallarins og á milli bæjarins og Höfuðborgarsvæðisins.

Lítil vitneskja virðist vera meðal bæði erlendra ferðamanna og Íslendinga að mögulegt sé að ferðast með Strætó frá flugvellinum en kvartað hefur verið yfir því að biðstöðin sé lítt sýnileg og of langt frá flugstöðinni.

Ekkert bólar á umbótum

Starfshópur um bættar almenningssamgöngur frá Höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkurflugvallar átti að skila af sér tillögum í september á síðasta ári en þær tillögur liggja ekki enn fyrir. Hildur Sverrisdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram fyrirspurn á Alþingi til innviðaráðherra í mars síðastliðnum um hvenær mætti vænta niðurstöðu starfshópsins en fyrirspurninni hefur enn ekki verið svarað.

Svandís Svavarsdóttir tók við embætti innviðaráðherra í apríl en hún sagði í maí síðastliðnum að almennigssamgöngur frá Höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur væru ekki nógu góðar. Tillögur til úrbóta eiga hins vegar enn eftir að líta dagsins ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Ekki gerst í heil 18 ár
Fréttir
Í gær

Samtök með skuggalega fortíð auglýsa kynlífs shamanisma námskeið á Íslandi – Sökuð um misnotkun og dýrafórnir

Samtök með skuggalega fortíð auglýsa kynlífs shamanisma námskeið á Íslandi – Sökuð um misnotkun og dýrafórnir
Fréttir
Í gær

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“