fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Sögð hafa fengið á annað hundrað milljónir að gjöf en sleppur með skrekkinn hjá yfirskattanefnd

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. júní 2024 12:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega kvað yfirskattanefnd upp úrskurð í máli konu sem hafði skotið ákvörðun ríkisskattstjóra til nefndarinnar sem hafði lagt álag á skattgreiðslur hennar vegna vangoldins skatts af  tæplega 64,1 milljón króna peningagreiðslu sem konan var sögð hafa þegið að gjöf frá erlendum manni. Var sú greiðsla sögð vera til að greiða vangoldinn skatt af gjöf sem maðurinn hefði áður greitt konunni en fyrri greiðslan frá manninum var yfir 130 milljónir króna. Yfirskattanefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að konan þyrfti ekki að greiða álagið til viðbótar við skattgreiðslu.

Miðað við þær tölur sem koma fram í úrskurðinum er ljóst að um er að ræða sömu konu og ákærð hefur verið af héraðssaksóknara fyrir skattalagabrot, í svokölluðu auðkýfingsmáli, vegna upphaflegrar rúmlega 130 milljónar króna gjafar mannsins. Konan, sem er á þrítugsaldri. segir að ekki hafi verið um að ræða gjöf heldur lán og krafa Skattsins hafi þegar verið greidd. Tvær aðrar konur hafa verið ákærðar í málinu en þær eru sagðar hafa þegið lægri upphæðir frá þessum sama manni. Málið gegn konunum hefur verið þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands og búist er við því að aðalmeðferð fari fram í haust.

Þrjár íslenskar konur ákærðar fyrir skattsvik eftir að hafa þegið 200 milljónir frá erlendum auðkýfingi

Yfirlýsing í auðkýfingsmálinu: Kona sem fékk 130 milljónir svarar fyrir sig

Í úrskurði yfirskattanefndar segir að konan hafi í janúar síðastliðnum kært úrskurð ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunar opinberra gjalda hennar fyrir árið 2023. Skattstofn hennar var þá hækkaður um 64.115.982 króna. Var þetta gert á þeim grundvelli að konan hefði þegið þessa upphæð að gjöf frá erlenda manninum, árið 2022, og ekki gert grein fyrir því við skattskil. Ríkisskattstjóri lagði 25 prósent álag ofan á skattstofninn. Með kærunni til Yfirskattanefndar krafðist konan þess að álagið yrði fellt niður.

131 milljón og 64,1 milljón

Um málavexti segir í úrskurði að upphaflega hafi skattrannsóknarstjóri tekið skattskil konunnar vegna áranna 2016 og 2017 til skoðunar vegna erlendra greiðslna inn á bankareikning hennar. Rannsókninni lauk 2020 og var það niðurstaða hennar að skattframtöl konunnar væru röng þar sem hún hefði látið hjá líðast að telja fram 131.414.910 krónur sem hún hefði fengið að gjöf frá umræddum manni. Ríkisskattstjóra endurákvarðaði í kjölfarið opinber gjöld konunnar og hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn hennar fyrir gjaldárin 2017 og 2018 um þessa sömu upphæð. Konan kærði þá niðurstöðu til yfirskattanefndar sem hafnaði kröfu hennar í desember 2021.

Eins og áður segir hefur héraðssakóknari ákært konuna vegna þessa máls fyrir skattalagabrot.

Konan sendi í lok desember 2021 fyrirspurn til ríkisskattstjóra þar sem kom fram að greiðsla vegna skattskuldarinnar af milljónunum 130 yrði greidd erlendis frá beint inn á reikning sýslumanns. Vildi konan fá að vita hvort þessi greiðsla erlendis frá væri skattskyld. Í úrskurði Yfirskattanefndar segir að henni hafi verið tjáð að þar sem annar einstaklingur væri að greiða skattskuldina fyrir hana yrði litið á greiðsluna sem skattskylda gjöf og bæri henni að gera grein fyrir greiðslunni í skattframtali. Í janúar 2022 var skattskuldin vegna 130 milljón króna gjafarinnar greidd með tveimur erlendum greiðslum sem námu samtals 64.115.982 krónum, sem erlendi maðurinn greiddi.

Í september 2023 óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á því hvers vegna erlendi maðurinn hefði greitt skattskuldina fyrir konuna og hvernig stæði á því að hún hefði ekki gert grein fyrir greiðslunum í skattframtali vegna ársins 2022. Sagðist konan hafa fengið misvísandi svör frá skattayfirvöldum um hvort henni bæri að greiða skatt af greiðslunum þar sem þær hefðu aldrei borist henni sjálfri. Sagðist hún hafa talið að Skatturinn vissi allt um málið í ljósi þess að greiðslurnar hefðu farið beint þangað og að hún hefði ekki gert sér grein fyrir að hún þyrfti að sjá til þess að endurskoðandi hennar, sem hafi séð um skattskil fyrir hennar hönd, myndi skrá greiðslurnar.

Í kjölfarið var konunni tilkynnt að skattstofn hennar vegna ársins 2022 yrði hækkaður um þá upphæð sem nam greiðslu skattskuldarinnar, vegna 131,4 milljóna gjafar erlenda mannsins, 64.115.982 krónur að viðbættu 25 prósent álagi. Var þessi endurákvörðun opinberra gjalda eins og áður segir framkvæmd í janúar á þessu ári.

Hafi ekki fengið nógu góðar leiðbeiningar

Í kæru sinni til yfirskattanefndar bar konan því meðal annars við að hún hafi fengið misvísandi svör frá starfsmönnum Skattsins um hvort hún þyrfti að greiða skatt af greiðslunum frá erlenda manninum vegna skattskuldarinnar. Sumir þeirra hafi tjáð henni að hún þyrfti þess ekki þar sem greiðslan hefði farið beint frá manninum til Skattsins en aðrir sagt hið gagnstæða. Vísaði hún til leiðbeiningarskyldu Skattsins samkvæmt stjórnsýslulögum. Sagðist konan einnig hafa farið fram á leiðréttingu á framtali sínu þegar henni varð ljóst að um hefði verið að ræða skattskylda gjöf.

Í niðurstöðu yfirskattanefndar segir að það liggi fyrir að konan hafi tilkynnt ríkisskattstjóra að skattskuld hennar vegna 131,4 milljón gjafarinnar yrði greidd af erlenda manninum og hafi um leið óskað eftir upplýsingum um mögulega skattskyldu vegna þessa. Þar sem upplýsingar um þessa skattskyldu gjöf hafi legið fyrir áður en almennri álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2023 var lokið og í ljósi ákvæða laga um heimild ríkisskattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals verði ekki talið að beiting álags hafi verið nægilega rökstudd.

Því var fallist á kröfu konunnar um að 25 prósent álagið yrði fellt niður en eftir sem áður þurfti hún að greiða tekjuskatt og útsvar af 64.115.982 krónum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump