fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Flokkarnir sem duttu af þingi ekki langlífir – Verður VG sá sjötti?

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 10. júní 2024 16:30

Guðmundur Ingi hefur nú það erfiða verkefni að snúa fylgistapinu við og hann hefur ekki langan tíma.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hræðilegar mælingar Vinstri grænna í skoðanakönnunum, sem sýna þá með allt niður í rúmlega 3 prósenta fylgi hafa vakið mikið umtal í þjóðfélaginu. Einkum hjá þeim sem eftir eru í flokknum eða hafa haft tengingu við hann á einhverjum tímapunkti.

Einkum er nefnt að ríkisstjórnarsamstarfið hafi haft þessi slæmu áhrif, sem og svik við ýmis málefni sem flokkurinn hafi staðið fyrir á árum áður, svo sem andstöðuna við NATO. Flokkurinn sé farinn að snúast algerlega um völd.

3 prósenta fylgi dugar ekki fyrir jöfnunarsæti í alþingiskosningunum og því allt útlit fyrir að flokkurinn myndi þurrkast út af þingi með slíka kosningu. En hver eru örlög þeirra stjórnmálaflokka sem hafa dottið út af þingi. DV leit yfir sviðið.

 

2017 – Björt framtíð

Eins og frægt er orðið slitu Björt framtíð ríkisstjórn sinni, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eftir að upp komst að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, hefði skrifað undir meðmæli með því að dæmdur barnaníðingur fengi uppreista æru.

Óttar Proppé fyrrverandi heilbrigðisráðherra kýs. Mynd/Fréttablaðið/Anton Brink

Allir flokkarnir í þessari ríkisstjórn töpuðu mönnum en Björt framtíð tapaði öllum sínum 4 þingsætum og fékk aðeins 1,2 prósent í kosningunum. Flokkurinn er enn þá til sem skel en hefur ekki boðið fram í undanförnum sveitarstjórnar eða alþingiskosningum. Má segja að hann sé lifandi dauður.

 

2009 – Frjálslyndi flokkurinn

Eftir að hafa fengið ágætiskosningu í þremur alþingiskosningum í röð og náð að eignast borgarstjóra Reykjavíkur datt Frjálslyndi flokkurinn loks af þingi árið 2009. Fékk flokkurinn aðeins 2,2 prósent.

Innanflokksátök höfðu verið mikil í flokknum og í staðinn fyrir að beita sér einkum fyrir breytingu á kvótakerfinu eins og hann gerði í upphafi var flokkurinn farinn að snúast að mestu leyti um andstöðu við innflytjendur.

Guðjón Arnar Kristjánsson stofnaði Frjálslynda flokkinn til að breyta kvótakerfinu. Undir lokin var flokkurinn orðin nær óstarfhæfur. Mynd/Frjálslyndi flokkurinn

Flokkurinn hætti að bjóða fram, enda var hann stórskuldugur. Árið 2012 rann hann inn í Dögun, sem aldrei hefur náð manni inn á þing.

 

1987 – Bandalag jafnaðarmanna

Hinn vinsæli stjórnmálamaður Vilmundur Gylfason klauf Alþýðuflokkinn árið 1982 og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna. Árið 1984 fékk flokkurinn glimrandi kosningu og fjóra þingmenn kjörna sem hann leit þó á sem vonbrigði.

Flokkur Vilmundar kom inn með stormi en liðaðist fljótt í sunur. Mynd/DV

Vilmundur lést skömmu eftir kosningarnar og þingflokkurinn leystist upp á kjörtímabilinu, það er þingmennirnir fóru í aðra flokka. Bandalag jafnaðarmanna bauð hins vegar fram í kosningunum 1987 en beið afhroð. Fékk aðeins 0,1 prósent og mjög langt frá því að ná inn manni. Eftir það var hann aflagður.

 

1978 – Samtök frjálslyndra og vinstrimanna

Samtökin voru klofningsframboð Hannibals Valdimarssonar úr Alþýðubandalaginu árið 1969. Fengu þau kjörna menn í tvennum kosningum og tóku þátt í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar.

Hannibal Valdimarsson var hvatamaðurinn að stofnun Samtakanna. Þau lifðu í tíu ár.

Árið 1978 var hins vegar komið að endastöð. Fékk flokkurinn þá 3,3 prósent og missti sína tvo þingmenn. Árið 1979 voru Samtök frjálslyndra og vinstrimanna lögð niður.

 

1959 – Þjóðvarnarflokkurinn

Þjóðvarnarflokkurinn var þjóðernissinnaður flokkur á vinstri vængnum sem barðist einna helst fyrir úrsögn Íslands úr NATO og brotthvarfs bandaríska hersins. Hann náði ágætiskosningu í sínum fyrstu alþingiskosningum árið 1953 og fékk tvo menn kjörna.

Gils Guðmundsson var annar þingmaður Þjóðvarnarflokksins. Hann tók seinna sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið. Mynd/Alþingi

Í kosningunum árið 1956 missti hann báða mennina og hlaut aðeins 4,5 prósent. En ólíkt áðurnefndum flokkum hættu Þjóðvarnarmenn ekki eftir það. Tvennar kosningar voru haldnar árið 1959 og bauð flokkurinn fram í báðum. Hann hafði þó ekki erindi sem erfiði, þrátt fyrir að hafa bætt við sig næstum heilu prósentustigi í seinni kosningunum. Árið 1963 rann Þjóðvarnarflokkurinn inn í Alþýðubandalagið.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á