fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Leigumarkaður: Leigufélagið Bríet sagt spillingarbæli Framsóknar sem fari verr með leigjendur en Heimavellir

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 9. júní 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leigufélagið Bríet, dótturfélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, er spillingarbæli þar sem eignir, sem félagið fékk frá Íbúðalánasjóði á spottprís til að efla heilbrigðan leigumarkað, fyrst og fremst á landsbyggðinni, eru leigðar á uppsprengdu verði og þrátt fyrir að yfirlýst markmið félagsins sé að vera óhagnaðardrifið leigufélag, auk þess sem fjöldi eigna hefur verið seldur út úr félaginu með miklum hagnaði. Bríet er í raun eftirlíking af Heimavöllum og hefur leikið leigutaka sína verr en hagnaðardrifna félagið. Þetta má lesa í umfjöllun Samstöðvarinnar um málefni leigufélagsins, en kveikjan að henni er sögð áhugavert erindi og greining á Bríeti sem leigjandi sendi miðlinum

Í umfjölluninni kemur fram að leigufélagið Bríet sé í eign ríkisins en sjálfstætt rekið og ætlað að vera „án hagnaðarsjónarmiða“ og „að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar“, með áherslu á langtímaleigu og að styrkja leigumarkaðinn á landsbyggðinni sérstaklega. Bríet var upphaflega stofnað sem leigufélag Íbúðalánasjóðs, en eftir að Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun runnu saman í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun varð leigufélagið að dótturfélagi HMS.

Fram kemur að yfirvöld hafi gjarnan notað Bríet sem dæmi um framlag sitt til úrlausna á leigumarkaði og hreykt sér mikið af.

Framsóknarfélagið Bríet

Samstöðin fullyrðir að í stjórn Bríetar sitji fyrst og fremst innmúrað Framsóknarfólk. Framkvæmdastjórinn, Helgi Haukur Hauksson hafi verið framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og þar áður formaður ungra Framsóknarmanna. Þáverandi formaður Bríetar þegar Helgi var ráðinn hafi verið Ásta Björg Pálmadóttir, fyrrum sveitarstjóri Skagafjarðar sem sjálf hafi verið  skipuð í stjórn Íbúðalánasjóðs árið 2018 af Ásmundi Einari Daðasyni, þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra Framsóknarflokksins.

Núverandi stjórnarformaður Bríetar er Jón Björn Hákonarson, sem Samstöðin segir hafa hrökklaðist úr embætti bæjarstjóra Fjarðabyggðar, þar sem hann var oddviti Framsóknarflokksins, eftir að hafa verið spurður út í óskráðar eignir sínar. hafi ástæðu uppsagnarinnar vera að hann væri „orðinn þreyttur“.

Í umfjöllun Samstöðvarinnar segir að Jón, sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hafi selt Bríeti íbúðir í eigu sveitarfélagsins árið 2021, gegn eignarhlut sveitarfélagsins í leigufélaginu. Þáverandi framkvæmdarstjóri Bríetar, Soffía Gunnarsdóttir og þáverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jón Björn „hinn þreytti“ Hákonarson undirrita íbúðarkaupin árið 2021.

Leigjandinn sem sendi erindið til Samstöðvarinnar lýsir samskiptum sínum við Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í heimsókn þingmanna flokksins á Selfoss í hringferð sinni um landið. Aðspurður hafi Óli Björn hafi tjáð leigjandanum að leigufélaginu Bríeti hafi aldrei verið ætlað að standa í „einhverri leigustarfsemi, heldur var Bríet stofnað til að halda utan um eignir þar til þær seldust“.

Þessi túlkun þingmannsins á tilgangi Bríetar er athyglisverð og mjög á skjön við það sem segir á heimasíðu Bríetar:

  1. Hlutverk og tilgangur Leigufélagsins Bríetar ehf.

Rekstur og útleiga húsnæðis

Markmið leigufélagsins Bríetar er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi á landsbyggðinni í samstarfi við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Bríeti er ætlað að stuðla að uppbyggingu á heilbrigðum leigumarkaði á landsbyggðinni og rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði víða um land. Leigufélagið starfar í þágu almannaheilla samkvæmt markmiðum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun setur. Rekstur Leigufélagsins Bríetar ehf. skal vera sjálfbær. Ekki er gerð arðsemiskrafa til eigin fjár Bríetar til að félagið geti sem best starfað í þágu almannaheilla og uppbyggingar leigumarkaðar á landsbyggðinni. Verði rekstrarafgangur skal hann notaður  til vaxtar eða viðhalds félagsins eða til niðurgreiðslu lána. Arð eða ígildi hans er ekki heimilt að greiða út heldur skal varið til framkvæmda í samræmi við markmið félagsins.

Kjarnastarfsemi og starfssvið

Kjarnastarfsemi Bríetar ehf. er að eiga, reka og leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma. Rekstur, viðhald, kaup, sala og uppbygging á íbúðarhúsnæði sem styður við og styrkir leigufélagið. Kostnaður og tekjur vegna slíkra verkefna skulu lagðar til samþykktar fyrir stjórn Bríetar ásamt hefðbundinni rekstraráætlun, þó þannig að ekki er gerð arðsemiskrafa til eigin fjár. Leigufélagið Bríet ehf. skal leggja áherslu á að koma að uppbyggingu leigumarkaðs á landsbyggðinni meðal annars með þátttöku í tilraunaverkefnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, vinnu í samstarfi við sveitarfélög  og aðra hagsmunaaðila til að stuðla að virkum leigumarkaði.

Leigjandinn greinir frá því að leigan fyrir 119 fermetra eign á landsbyggðinni hafi hækkað frá 210 þúsund, upp í 246 þúsund krónur á leigutímanum. Með húsnæðisstyrk hafi upphæðin numið 45-58% af ráðstöfunartekjum leigjandans, en án styrksins hefði það náð upp í allt að 86% og lægst numið allt að 65% af ráðstöfunartekjum. Á þeim tíma hafi viðhaldi verið illa ef ekkert sinnt og leigjandinn þurft að standa í töluverðu stappi við leigufélagið.

Um stefnu Bríetar segir á heimasíðu leigufélagsins:

Stefna Leigufélagsins Bríet er að stuðla að heilbrigðum og hagkvæmum leigumarkaði á landsbyggðinni. Örugga og fjölbreytta húsnæðiskosti í langtímaleigu fyrir bæði einstaklinga og fjölskyldur. Þá er stefna félagsins að rekstur þess verði sjálfbær og að félagið sé alltaf rekið án hagnaðarsjónarmiða.

Góð og fagleg þjónustu til leigutaka er félaginu mikilvæg, eins að viðhaldi eignasafnsins sé sinnt á ábyrgan hátt. Bríet leggur áherslu á gott samstarf við sveitarfélögin á landsbyggðinni og að það sé áframhaldandi þróun á eignasafni félagsins þar sem langtíma húsnæðisöruggi á landsbyggðinni sé tryggt sem flestum.

Fram kemur að frá 2019 hefur Bríet selt 20 af þeim 40 eignum sem leigufélagið átti á Suðurlandi, fyrir samtals rúmlega 803 milljónir. Kaupverð eignanna 40 í heild var samtals rúmlega 454 milljónir króna á sínum tíma, sem gerir meðalverð íbúðanna rúmar 11 milljónir króna.

Leigjandinn bendir á að gróðinn af sölu eignanna sé gríðarlegur og „gerir hagnað hjá hinu óhagnaðardrifna leigufélagi upp á kr. 576.054.200“.

Bríet hafi þannig hagnast um rúmlega hálfan milljarð á eignasölu, þrátt fyrir yfirlýst markmið félagsins um að auka umsvif sín á leigumarkaði og stuðla að langtímaleigu.

Leigjandinn segist fremur hefðu „viljað kaupa eignina á kr. 11.357.290 en að hafa greitt rúmlega kr. 13.000.000 í húsaleigu til ríkisins á 5 árum“ og telur að ef almenningi hefði staðið til boða að kaupa „hefðu þær selst samstundis“. Leigjandinn bætir við: „Ef ekki átti að fara í leigustarfsemi með eignir Íbúðalánasjóðs sem Leigufélagið Bríet fékk á sérkjörum – hefðu þær þá ekki bara verið seldar 2019?

Það orki tvímælis að lýsa yfir markmiði um langtímaleigu, rukka fyrir það hátt verð og fara svo samt í hagnaðardrifna eignasölu.

Í sannleika sagt þá tel ég að stjórnvöld með Leigufélaginu Bríet sé ekkert annað en „copycat“ leikur af starfsemi Heimavalla. Líta megi svo á að ríkisrekna óhagnaðardrifna Leigufélagið Bríet í eigu ríkisstofnunarinnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi brotið enn verr á leigjendum þessa lands en Heimavellir.“

Að lokum bendir leigjandinn á að þróun launakostnaðar hjá Bríet hafi verið ískyggileg: „Hvað er að frétta með launakostnaðinn hjá Leigufélaginu Bríet hann hefur hækkað úr kr. 5.363.021 (2019) í kr .97.942.214 (2022)?“

Blaðamaður Samstöðvarinnar hnykkir út með því að skrifa að það „hljóti að kosta töluvert að halda uppi launum fyrir hjörð af oddvitum og framkvæmdastjórum Framsóknarflokksins, fyrir hina svokölluðu samtryggingu auðvaldsins.“

Umfjöllun Samstöðvarinnar má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“