Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin greindi frá þessu í gær.
Ekki er vitað hvernig maðurinn smitaðist en H5N2 hefur fundist í alifuglum í Mexíkó. Maðurinn hafði þó ekki verið í nálægð við alifugla eða önnur dýr áður en hann veiktist og lést.
Í frétt AP kemur fram að maðurinn hafi verið lagður inn á sjúkrahús í Mexíkóborg þann 24. apríl síðastliðinn og látist þann sama dag. Hafði hann verið rúmliggjandi í um viku með hita og niðurgang auk þess sem hann átti erfitt með að anda.
Maðurinn var með undirliggjandi sjúkdóma á borð við nýrnabilun, sykursýki og of háan blóðþrýsting.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að almenningi í Mexíkó stafi lítil hætta af H5N2 þrátt fyrir þetta tiltekna andlát. Ekki hafa fleiri tilfelli veirunnar greinst en sýni voru tekin úr aðstandendum mannsins og heilbrigðisstarfsfólki sem sá um umönnun hans áður en hann lést.