Lokun sendiráðsins í Moskvu, herskáar yfirlýsingar um Úkraínustríðið og fjármögnun vopnakaupa vegna stríðsins og óskynsamlegar ákvarðanir af hálfu íslenskra stjórnvalda stefna Íslandi í óþarfa hættu gagnvart Rússlandi, að mati Hilmars Þórs Hilmarssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi starfsmanns utanríkisráðuneytisins.
Hilmar ræddi þessi mál á Bylgjunni í morgun. Hann segir að mannúðaraðstoð og aðstoð við uppbyggingu séu eitthvað sem henti Íslandi og sé óumdeilt, dragi ekki að okkur óæskilega athygli. Vopnakaup hæfi ekki þeirri tegund af aðild sem Ísland sé með að Nató, en þar erum við inni sem vopnlaus og herlaus þjóð.
„Ég var algjörlega á móti því að loka sendiráðinu í Moskvu. Sendiráðið í Moskvu var að sinna ekki bara Rússlandi heldur sjö átta öðrum löndum, fyrrum Sovétlýðveldi, þetta voru bara tveir diplómatar, þetta var ódýrt í rekstri. Sendiráðsbyggingin var mjög hagstæð fyrir okkur, hún var í eigu rússneska ríkisins. Það var mjög óskynsamlegt að gera þetta að mínum dómi. Þetta var svolítið eins og þegar við viðurkenndum Eystrasaltsríkin, þá myndu öll lönd koma í kjölfarið og loka sendiráðinu í Moskvu,“ segir Hilmar, en engin önnur Nató- eða ESB-ríki en Ísland lokuðu sendiráðum sínum í Moskvu.
Hilmar segir yfirlýsingar íslenskra ráðamanna um stríðið vera óheppilegar.
„Við erum að tala um að vinna stríðið, við erum að tala um að Úkraína þurfa að gera þetta og hitt, það er engin innstæða fyrir þessu. Smáríki sem hefur ekki her, því er best borgið í heimi þar sem er friður. Við eigum ekki að stofna til átaka við stórveldi að nauðsynjalausu. Við höfum farið í átök við stórveldi eins og í landhelgisdeilunni, við Bretland. Þá var efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í veði. En í heiminum eins og í dag, vopnlaus smáþjóð, sérstaklega þegar okkar bandalagsríki sem við höfum tvíhliða varnarsamning við og við erum með Nató-aðild – baklandið er óvíst. Það verða forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember og síðan getur komið forseti sem er á allt annarri blaðsíðu en núverandi forseti. Aðstoð Nató og Bandaríkjanna við okkur er ekki alveg á hreinu þannig að ég held að fyrir svona smáríki þá eigum við frekar að tala fyrir friði.“
Segir Hilmar að íslenskir ráðamenn tjái sig um þessi mál eins og fjögurra stjörnu herforingjar, „sem mér finnst ekki passa fyrir Ísland.“
Hilmar segir að Íslendingar þurfi sérstaklega að passa sig með tilliti til mikilla umsvifa Rússa á Norðurslóðum og samstarfs þeirra við Kínverja „Við erum á Norðurslóðum og erum með efnhagslögsgöu sem er risastór, hún er tvisvar sinnum stærri en Þýskaland að flatarmáli, hún er mjög stór. Við þurfum að passa okkur bæði þar sem við höfum mikla hagsmuni og Rússland er með mikil umsvif, að við séum ekki að stofna til óþarfa átaka við Rússland.“
Hilmar telur að herskáar yfirlýsingar Íslendinga um stríðið veki á á okkur óæskilega og óþarfa athygli. Við séum ekki með sýnilegar varnir á Keflavíkurflugvelli og skuldbinding Nató um að verja Ísland takmarkist á skilgreiningum ríkjanna á því hvað þau telji hæfilegt í þeim efnum.
Hann bendir á að Ísland hafi í gegnum tíðina ekki átt í deilum við Rússland eða Sovétríkin og við höfum allt aðra hagsmuni gegn þeim en Eystrasaltsríkin eða Finnland sem eru alveg ofan í Rússlandi og eiga erfiða sögu samskipta við Rússland.
„Við eigum að fara varlega,“ segir Hilmar.