Hákon Rafn Valdimarsson, landsliðsmarkvörður, æfir með KR á meðan hann dvelur hér á landi fram að komandi leikjum Íslands gegn Englandi og Hollandi.
Hann sagði frá þessu í Íþróttavikunni hér á 433.is, en hann er gestur í nýjasta þættinum. Hákon er á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Brentford en hefur verið á Íslandi undanfarna daga eftir að tímabilið kláraðist þar.
„Ég er búinn að vera að æfa með KR. Jamie (Brassington), sem er markmannsþjálfari þar, er markmannsþjálfari U-21 árs landsliðsins. Svo er ég bara KR-ingur,“ segir Hákon, sem spilaði bæði með KR og Gróttu í yngri flokkum en lék með meistaraflokki síðarnefnda félagsins.
Hákon var spurður út í „standardinn“ á æfingum KR.
„Hann er góður. Ég er mikið úti á grasinu, það er fínt að æfa á grasi,“ sagði Hákon.
Ísland mætir Englandi á Wembley 7. júní, en liðið kemur saman í London á mánudag. Þremur dögum síðar er svo leikur gegn Hollandi, einnig ytra.