Könnunin var gerð af Prósenti fyrir Morgunblaðið og var um netkönnun að ræða sem stóð yfir frá 27. maí til 30. maí. 4.500 manns voru í könnunarhópnum en 1.622 svöruðu. Svörin voru vegin með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Er það gert til að þau endurspegli betur raunverulega samsetningu þjóðarinnar.
Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar þá er fylgi Höllu Tómasdóttur 23,5%, fylgi Katrínar Jakobsdóttur er 22,2% og fylgi Höllu Hrundar Logadóttur er 22%. Næstu þeim kemur Baldur Þórhallsson með 14,6% fylgi og síðan Jón Gnarr með 9% fylgi. Arnar Þór Jónsson mælist með 6,1% en fylgi annarra frambjóðenda mælist á bilinu 0% til 1,1%.
Það stefnir því í æsispennandi kosninganótt þar sem örfá atkvæði geta ráðið úrslitum, það er að segja ef niðurstöður könnunarinnar veita rétta mynd af stöðunni.