Sky News segir að Oliver Dowden, varaforsætisráðherra, hafi nýlega kynnt nýja heimasíðu til sögunnar en henni er ætlað að leiðbeina fólki um hvernig það getur búið sig undir margvíslegt hættuástand, til dæmis flóð, rafmagnsleysi og heimsfaraldur.
Á vefsíðunni er fólk hvatt til að birgja sig upp af vatni á flöskum og er miðað við þrjá lítra á mann á degi hverjum sem lágmark. Þó er mælt með tíu lítrum á mann daglega til að tryggja meiri þægindi hvað varðar eldamennsku og þrif. Er fólk hvatt til að eiga birgðir til þriggja daga.
Fólk er einnig hvatt til að eiga mat sem „ekki þarf að elda“, til dæmis dósamat, grænmeti og ávexti, einnig barnamat og gæludýrafóður ef þörf krefur.
Á vefsíðunni kemur fram að einnig sé rétt að eiga dósaopnara og rafhlöður eða handknúið vasaljós og útvarp, blautþurrkur og skyndihjálparkassa.
Dowden sagði að þetta væri hugsað sem skynsamleg öryggisráðstöfun en ekki hvatning til að hamstra. Hann sagði að á vefsíðunni sé boðið upp á gagnlegar upplýisngar fyrir heimilin um hvernig þau geta undirbúið sig undir þær hættur sem taldar eru upp.