Trevoh Chalobah, miðvörður Chelsea, er á óskalista Manchester United til að fylla í skarð Raphael Varane. Independent segir frá.
Miðvarðastaðan var til vandræða hjá United á liðnu tímabili vegna meiðsla og leitar félagið að manni í þessa stöðu. Jarrad Brantwhaite hjá Everton hefur verið orðaður við félagið en Chalobah myndi reynast töluvert ódýrari kostur.
Chelsea vill selja hann til að halda sig innan ramma fjárhagsreglna og vill fá um 25 milljónir punda fyrir hann. Talið er að Branthwaite kosti aftur á móti um 80 milljónir punda.
Chalobah spilaði 17 leiki fyrir Chelsea á leiktíðinni en hann missti af fyrri hluta tímabils vegna meiðsla.