fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Bílaumboð neitar að taka við reiðufé við kaup á smáhlut – Löglegt og Neytendasamtökin geta lítið beitt sér

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 30. maí 2024 18:30

Mynd úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskiptavinur bílaumboðsins Öskju er ósáttur eftir að honum var neitað um að greiða fyrir smáhlut sem kostar 4.400 krónur með reiðufé. Maðurinn segir tilviljun hafa ráðið því að hann var með reiðufé en ekki kort handbært þá stundina. Hann segir þetta vera lélega þjónustu og skrifar eftirfarandi á Facebook:

„Í dag ætlaði ég að kaupa smáhlut fyrir kr. 4.400,- hjá bílaumboðinu Öskju. Svo sem ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að tilviljun réði því að ég var með reiðufé en ekki með kort.

Mér var neitað um afgreiðslu, þar sem fyrirtækið hefur mótað sér þá stefnu að taka ekki lengur við reiðufé – heldur eingöngu kortagreiðslum.

Ekki veit ég hvað öðrum finnst, en mér finnst það fádæma léleg þjónusta að neita að taka við greiðslu, þegar viðskiptavinur er tilbúinn til að greiða þér fyrir vöru, með löggildum gjaldmiðli landsins. Ég hafði hug á að kaupa smávöru,— ég var ekki að óska eftir að staðgreiða bíl með ferðatösku af seðlum!

Ég veit ekki á hvaða forsendum svona stefnumótun fer fram hjá fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega og veita góða þjónustu. Seinast þegar ég vissi þá var enginn skyldugur til að vera með kort og íslenska krónan (seðlar og mynt) ennþá löglegur gjaldmiðill í landinu.

Kannski er það merki um að aldurinn sé að færast yfir mig, að ég skuli ekki skilja eða kunna að meta breytingar af þessu tagi.

Í öllu falli er ég ákveðinn í einu og það er að nýta valfrelsi mitt til að fara annað með mín viðskipti … ekki flókið!“

Seðlabankinn segir löglegt að afþakka reiðufé

Aðspurður segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, að samtökin fái oft fyrirspurnir vegna fyrirtækja sem neita að taka við reiðufé. Að öðru leyti vísar hann til tilkynningar sem samtökin birtu árið 2021 en þar er vitnað til orða Seðlabankans sem álítur að seljendum vöru og þjónustu sé ekki óheimilt að hafna því að taka við greiðslu í reiðufé:

„Í kjölfar umræðu um fyrirtæki sem hafna því að taka við reiðufé af viðskiptavinum benda Neytendasamtökin á að í ágúst 2019 sendu samtökin fyrirspurn til Seðlabanka Íslands um hvort það væri heimilt. Í svari bankans segir meðal annars:

Samkvæmt lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands eru peningaseðlar og mynt sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefa út lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði, sbr. 3. gr. laganna. Hins vegar er ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greidd með reiðufé eða rafrænum hætti.“

Þannig telur Seðlabanki Íslands að seljendum sé ekki óheimilt að hafna að taka við greiðslum í reiðufé. Neytendasamtökin hafa ekki tekið málið lengra að svo stöddu, en benda á að samtökin hafa átt fulltrúa greiðsluráði Seðlabankans, hvar framtíð greiðslumiðlunar, meðal annars framtíð reiðufjár hefur verið til umræðu. Í greiðsluráðinu er það skýr afstaða Neytendasamtakanna að tryggja verði jafnan aðgang að greiðslumiðlun óháð stétt og stöðu. Meðal annars benda samtökin á að jaðarsettir hópar verða verst úti þegar höft eru sett á reiðufjárnotkun.“

Gegn peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka

Kristjana Bjarnþórsdóttir, forstöðumaður innkaupa og rekstrareftirlits hjá Öskju, segir í svari sínu við fyrirspurn DV að fyrirtækið vilji gera þjónustu sína að óæskilegri miðil fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þessi afstaða er einnig liður í að auka almennt öryggi í viðskiptum, en svarið er eftirfarandi:

„Askja tók þá ákvörðun að hætta móttöku reiðufjár frá 1. júní 2023. Ákvörðunin hefur reynst vel en sjálfsagt hefur verið að svara þeim fyrirspurnum og skýringum sem einhverjir viðskiptavinir hafa óskað eftir.

Megin ástæðan er að Askja fellur undir gildissvið peningaþvættislaga eins og önnur bifreiðaumboð og bifreiðasölur. Samkvæmt áhættumati ríkislögreglustjóra sem var gefið út í lok árs 2023 eru helstu ógnir bifreiðaumboða og bifreiðasala greiðslur með reiðufé. Markmið Öskju er því að gera þjónustu félagsins óæskilegri miðil peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka auk þess að auka almennt á öryggi í viðskiptum.

 Önnur ástæða fyrir ákvörðuninni var að taka skref í átt til stafrænnar framtíðar en notkun seðla og myntar, þ.e. reiðufjár, hefur minnkað talsvert í mörgum löndum og greiðslukortanotkun og önnur rafræn greiðslumiðlun komið í staðinn, t.d. greiðslur með farsímum.

 Þess má geta að þrátt fyrir að reiðufé sé gjaldmiðill með vísan í lög um gjaldmiðil Íslands nr. 22/1968 er fyrirtækjum heimilt að óska eftir því að greiðsla sé innt af hendi með rafrænum hætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg