Harry Redknapp fyrrum knattspyrnustjóri botnar ekkert í því að Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands hafi ekki valið Marcus Rashford í hóp sinn.
Rashford var að klára tímabilið með Manchester United þar sem hann átti mjög erfiða tíma og fann ekki taktinn.
Kantmaðurinn hefur hins vegar reynst enska landsliðinu vel og Redknapp skilur ekki ákvörðun Southgate.
„Þrátt fyrir að hafa verið slakur með Manchester United þá hefur hann alltaf staðið sig fyrir Englandi. Hann hefur alltaf spilað vel,“ segir Redknapp.
„Á HM í Katar var hann einn af markahæstu mönnum liðsins, þegar hann er í stuði er hann frábær leikmaður. Ég er mjög hissa á þessari ákvörðun.“
„Ég hefði valið hann í hópinn, ef hann er ekki að byrja þá kemur hann inn og getur ógnað með hraða sínum og krafti. Þegar Rashford er í stuði er hann ógn við andstæðinga sína. Ef ég væri að mæta honum þá myndi ég óttast hann.“