„Þetta uppfyllir allar kröfur, nema huglægt mat einhverrar nefndar út í bæ, sem segir að þetta gæti orðið neikvætt fyrir börn sem vilja taka upp þetta nafn eða foreldra sem skíra vilja börnin sín þetta einhvern tíma í framtíðinni sem ég veit ekki af hverju þau ættu að vilja gera,“
segir Rúnar Hroði Geirmundsson sem ekki varð ágengt í því að fá nafnið Hroði samþykkt hjá mannanafnanefnd.
Í úrskurði sínum þann 16. maí hafnar Mannanafnanefnd eiginnafninu Hroði á þeim grundvelli að það gæti valdið „nafnbera ama“.
Sjá einnig: Rúnar Hroði gefst ekki upp:„Ég ætla að fara með þetta alla leið“
Í viðtali í þættinum Blekaðir segist Rúnar Hroði vera með lögfræðing í málinu og höfnun Mannanafnanefndar verði tekin upp. „Ef þau samþykkja þetta ekki ætla ég bara að kæra,“ segir Rúnar Hroði. „Mig langar bara að vinna þetta á mínum forsendum þó það kosti mig peninga.“
Segir hann að frumvarp sé fyrir Alþingi um að leggja nefndina niður og nafn hans hafi verið tekið sem dæmi á Alþingi degi eftir úrskurð Mannanafnanefndar.
„Þetta er mjög persónulegt fyrir mig, mitt eigið nafn og mitt eigið identity,“ segir Rúnar Hroði og bendir á að hann þurfi að greiða fyrir að Mannanafnanefnd taki erindi hans fyrir. „Svo er ég bara að vinna og allir fara að senda mér skilaboð. Þá er Mbl, Vísir og DV búnir að hæðast að því að nafninu hafi verið synjað. Hér er fullt af nöfnum sem eru asnaleg, viljið þið ekki skrifa fréttir?
Það kemur engum við hvað ég heiti, ef ég vil heita Kúk í prumpi þá kemur engum það við nema mér og foreldrum mínum,“ segir Rúnar Hroði. Bendir hann á að einnig sé til staðar Hestanafnanefnd.