Hraunflæði er mest norðarlega á sprungunni og við gosop við Sýlingarfell sem opnaðist um tíu leytið í gærkvöldi. Takmarkað skyggni var á svæðinu í nótt og fram á morgun.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við RÚV að það hafi farið að hægjast á gosinu seinni partinn í gær og fram á kvöld. „Þá dró verulega úr virkninni og hún dró sig saman í nokkur virk gosop og virðist hafa haldið þannig áfram í alla nótt.“
Hraun rann yfir Grindavíkurveg og Nesveg í gær og í frétt RÚIV í morgun kemur fram að fleiri innviðir virðast ekki vera í hættu eins og staðan er núna.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir í Morgunblaðinu í dag að gosið hafi hafist af svo miklum krafti að kvikugeymirinn hljóti að tæma sig afar hratt. Það er það sem virðist einmitt hafa gerst.