fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Allir forsetaframbjóðendurnir, nema einn, vilja vera saman í lokakappræðunum – RÚV situr fast við sinn keip

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. maí 2024 22:05

Mynd: RÚV - Ragnar Visage

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deilt hefur verið um fyrirkomulag síðustu kappræðna þeirra tólf einstaklinga sem eru í framboði til forseta Íslands, sem verða á RÚV næstkomandi föstudagskvöld, kvöldið fyrir kjördag. Ellefu af tólf frambjóðendum hafa krafist þess að allir frambjóðendur verði saman í kappræðunum en RÚV ætlar sér að skipta þeim í tvo hópa, eftir fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Ekki er sjá annað á þessari stundu en að RÚV ætli sér ekki að breyta fyrirkomulaginu.

Allir frambjóðendurnir nema Katrín Jakobsdóttir hafa sent Stefán Eiríkssyni útvarpsstjóra og stjórn RÚV opið bréf þar sem farið er fram á að fyrirkomulagið verði eins og það var í fyrri kapræðum sem fóru fram á RÚV 3. maí en með því að hafa alla frambjóðendur saman hafi kjósendur fengið góða yfirsýn.

Ef ekki sé vilji til að verða því fara frambjóðendurnir fram á að varpað verði hlutkesti og þannig verði þeim skipt í hópa. Ætlun RÚV að skipta hópnum í samræmi við skoðanakannanir sé ólýðræðislegt:

„Skoðanakannanir taka aðeins til brotabrots af kosningabæru fólki á Íslandi og ef litið er til úrslita í síðustu forsetakosningum þar sem úrslit voru á skjön við niðurstöður kannana, er ljóst að ekki er lýðræðislegt að skoðanakannanir séu grundvöllur ákvarðanatöku Ríkisútvarpsins.

Við skulum heldur líta til þeirra þjóða sem stöðva birtingu skoðanakannana vikum fyrir kosningar af augljósum lýðræðisástæðum svo kjósendur geti fengið næði og ráðrúm til að mynda sér skoðanir án íhlutunar einkafyrirtækja.“

Skorað á Katrínu

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er meðal þeirra frambjóðenda sem ekki hafa hlotið mikið fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Hún hefur gengið einna harðast fram af þeim frambjóðendum sem mælast með lítið fylgi með kröfum um að frambjóðendahópnum verði ekki skipt upp með þessum hætti. Hún hefur skorað á þá frambjóðendur sem mælst hafa með mest fylgi að taka undir þessar kröfur.

Jón Gnarr og Baldur Þórhallsson voru síðastir frambjóðenda til að bæta nafni sínu við opna bréfið til RÚV en Steinunn Ólína segir á Facebook síðu sinni að skilaboð hennar til Baldurs með áskorun um að vera með hafi einfaldlega farið framhjá honum og hans teymi í öllu því skilaboðaflóði sem fylgi kosningabaráttu. Hún sagði í annarri færslu að það sama hefði gerst hjá Jóni Gnarr og hans fólki. Steinunn Ólína segir að Katrínu Jakobsdóttur hafi verið send beiðni um að vera með í því að krefjast þess að RÚV breyti fyrirkomulaginu. Hún skorar á Katrínu að svara beiðninni ef ske kynni að hún hefði framhjá henni.

Hafi verið tilkynnt fyrir löngu

RÚV fjallaði um kröfur frambjóðendanna ellefu fyrr í dag. Þótt það sé ekki beinlínis tekið fram í fréttinni virðist ætlunin ekki vera að verða við þessum kröfum.

Í fréttinni er áréttað að reglur um kappræðurnar hafi verið birtar 12. apríl, tveimur vikum áður en framboðsfrestur til forseta rann út, 26. apríl.

Í þeim reglum hafi RÚV áskilið sér rétt til þess að takmarka fjölda frambjóðenda sem mættust hverju sinni í umræðuþáttum.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), sem fylgist með framkvæmd kosninga hér á landi, hafi engar athugasemdir gert við þetta fyrirkomulag RÚV.

Enn fremur segir í frétt RÚV að markmiðið með því að skipta frambjóðendum í tvo hópa sé að skila áhorfendum meiru en þátttaka allra frambjóðenda í einum þætti muni leiða til. Verið sé einnig að bregðast við ábendingum ÖSE vegna umfjöllunar fyrir Alþingiskosningarnar 2013 en stofnunin hafi sagt að þar hafi skort dýpt í fjölmennum umræðuþáttum.

Þá segir í frétt RÚV:

„Þá er það einnig mat RÚV að með þessu geti áhorfendur sem best borið saman þá frambjóðendur sem njóta stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.“

Hafi verið gert áður

Í frétt RÚV er einnig vísað til þess að frambjóðendum hafi verið skipt í hópa eftir fylgi í skoðanakönnunum í umræðuþáttum fyrir forsetakosningarnar 2016 og fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fóru sama ár.

Ástþór Magnússon hafi 2016 kvartað yfir við Fjölmiðlanefnd sem hafi ekki gert neinar athugasemdir við fyrirkomulagið. ÖSE og Evrópuráðið hafi einnig fallist á nauðsyn þess að skipta frambjóðendum í hópa í umræðuþáttum í samræmi við fylgi þeirra í skoðanakönnunum.

Samkvæmt fyrirliggjandi dagskrá RÚV munu kappræðurnar standa yfir frá klukkan 19:40 til klukkan 22:00 á föstudagskvöld. Í fyrri hluta útsendingarinnar verður rætt við þá frambjóðendur sem mælast munu með meira en 5 prósent fylgi í könnun Gallup sem væntanleg er á föstudaginn. Í seinni hluta útsendingarinnar verður rætt við þá frambjóðendur sem munu mælast með minna en fimm prósent fylgi samkvæmt þeirri könnun.

Verði niðurstöður þeirrar könnunar í samræmi við síðustu könnun Gallup mun RÚV skipta frambjóðendum með eftirfarandi hætti í lokakappræðunum:

Fyrri hluti: Arnar Þór Jónsson, Baldur Þórhallssson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir.

Seinni hluti: Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon, Eiríkur Ingi Jóhannsson, Helga Þórisdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Viktor Traustason.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um að beiðni Steinunnar Ólínu um að Jón Gnarr styddi kröfur um að allir frambjóðendur fengju að vera saman í kappræðunum hefði upphaflega farið framhjá Jóni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar