Rússnesk stjórnvöld hafa gert ríkjum heims, þá sérstaklega Vesturlöndum, það ljóst að þetta sé aðvörun til meðal annars Frakklands og Bretlands en ríkin hafa opnað á möguleikann að senda hermenn til Úkraínu og að heimila Úkraínumönnum að nota langdræg vopn til árása á rússneskt landsvæði.
Nikolai Sokov, sérfræðingur hjá hugveitunni Vienna Center for Disarmament and Non-Proliferation sem einbeitir sér að vopnaeftirlit, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að æfingar af þessari tegund séu ekki sjaldgæfar í sjálfu sér. Það geri þessa æfingu þó sjaldgæfa að hans sögn hvernig hún var kynnt til sögunnar á pólitískum vettvangi sem og hvernig áróðurinn í kringum hana hefur verið.
Hann sagði að það sem sé nýtt í tengslum við æfinguna sé hversu mikla opinbera athygli hún hefur fengið. Pútín hafi tilkynnt um hana og fjallað hafi verið um hana í sjónvarpi og önnur umfjöllun hafi einnig komið til.
„Þetta eru nokkuð týpísk skilaboð með kjarnorkuvopnum. Rússar hafa séð eitthvað sem þeir telja hættulegt og senda skilaboð um að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar. Þetta er nánast eftir kenningunni um að senda skilaboð með kjarnorkuvopnum,“ sagði Sokov.