„Samkvæmt Google maps þá eru þetta erlendar höfuðstöðvar eins af þeim fyrirtækjum sem þverbrjóta lög um smásölu áfengis hérlendis. Myndin segir meira en þúsund orð,“ segir Árni sem nefnir þó ekki nafn fyrirtækisins.
Myndin hefur vakið talsverða athygli og segir einn í athugasemdum að myndin minni á húsnæði fyrirtækja sem komu fyrir í Panamaskjölunum.
Vegna einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis hér á landi mega netverslanir sem sýsla með áfengi ekki vera skráðar á Íslandi. Eru þær því skráðar í öðrum löndum en á sama tíma er lagerinn á Íslandi.
Árni hefur barist gegn netsölu áfengis hér á landi og vakti hann til dæmis athygli fyrr á þessu ári þegar hann kærði sjálfan sig til lögreglu. Hafði Árni keypt bjór á netinu af tveimur vefsíðum sem selja áfengi en með þessu vildi hann láta reyna á lögmæti þess að kaupa áfengi á netinu og fá það afhent á Íslandi.