fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

„Ég bara stökk af hjólinu mínu fór á hnén og þakkaði honum fyrir“

Fókus
Þriðjudaginn 28. maí 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þorvaldsson listamaður, viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins er líklega hvað þekktastur sem leikari en hann er einnig fantaflottur leikstjóri og tónlistarmaður svo eitthvað sé nefnt. Hann er Borgfirðingur úr Reykholtsdalnum og þótt hann elskaði sveitina sem lítill adhd gaur þá ólgaði alltaf í honum ævintýraþrá og löngun í nýjar áskoranir sem hefur fylgt honum allar götur síðan. Hann ætlaði sér alltaf að læra til prests en fór af einskærri tilviljun í inntökupróf í leiklistarskólann áður en hann innritaði sig í guðfræðina og þar með var ekki aftur snúið. Guðmundur Ingi er fyrir stuttu kominn frá Marokkó þar sem hann lék á móti Anthony Hopkins í Hollywood mynd og nýlega kom út tölvuleikurinn Hellblade II þar sem hann leikur Fargrím, eitt af stærri hlutverkum leiksins. Í þættinum ræða þeir Mummi á einlægu nótunum uppvöxtinn í sveitinni, leikhúsið og tilfinningalega rússíbanann sem fylgir því að vera mannvera.

Lét áfengi vera í 8 ár eftir sopafyllerí

Guðmundur ólst upp við mikið frelsi sveitinni en þó blundaði eirðarleysið í honum. . Hann smakkaði fyrst áfengi á sopafyllerí í sveitinni 13 ára gamall. Það átti eftir að vera hans einu kynni að áfengi þar til hann komst á þrítugsaldur.

Það vildi svo til að í sveitinni og í fjölskyldu Guðmundar höfðu menn glímt við alkóhólisma og þegar móðir Guðmundar stóð hann að því að drekka útskýrði hún fyrir honum að hann hefði sömu persónueinkenni og þeir ættingjar hans sem höfðu glímt við sjúkdóminn. Hann smakkaði því ekki áfengi aftur fyrr en hann var 21 árs.

Eirðarleysið sendi Guðmund á heimavistina við Menntaskólann á Akureyri og þaðan flutti hann í höfuðborgina þar sem hann ætlaði að læra til prests. Fyrir hálfgerða tilviljun ákvað hann að mæta í inntökupróf í leiklistarskólann, án þess að hafa nokkru sinni áður íhuga að gerast leikari.

Hann útskýrir að eftir að hann var kominn nokkuð langt í inntökuferlinu þá var hann spurður hvort hann myndi reyna aftur að ári ef hann kæmist ekki inn að þessu sinni. Guðmundur tilkynnti þá að það myndi hann ekki gera. Hann ætlaði að verða prestur.

Það kom þó ekki til þess því Guðmundur komst inn í þessari fyrstu tilraun sinni. Og þá var ekki aftur snúið. Hann hafði fundið sinn stað og sitt fólk.

Bóhemlífið og þjáðir listamenn

Við tóku ár þar sem hann vann mikið en fór á sama tíma að drekka. Bóhemlífið í leiklistarskólanum þótti vera eins konar norm.

„Þetta þótti bara eðlilegt að vera svolítið að rannsaka sálarlífið í gegnum djamm, markaleysi og hömluleysi til að einhvern veginn kynnast skuggalífinu í sjálfum sér, mannlífinu og svona. Við vorum ungir listamenn og tókum þessu svolítið alvarlega. Þetta var ofboðslega gaman og mér leið mjög vel og allt það“

Það átti þó eftir að breytast. Guðmundur vann mikið og djammaði mikið eftir útskrift. Þetta safnaðist á sálina og árið 2007 fékk hann nóg og ákvað að snúa aftur í sveitina. Sem reyndist gæfuspor. „Þetta var rosalega mikilvægt tímabil, að komast heim í ræturnar.“

Andlegt gjaldþrot leiddi hann aftur að rótunum

Andlega gjaldþrota sneri hann haftur í Reykholtsdalinn til að stoða móður sína á meðan faðir hans jafnaði sig eftir aðgerð. Þar bauðst honum að halda leiklistarnámskeið sem fréttist um alla sveitina og alla leið til HvanneyriHvanneyri þar sem ung kona var við nám í landslagsarkitektúr. Hún sá auglýsingu um námskeiði og hafði einmitt ætlað sér að kynnast betur fólkinu í sveitinni. Hún skráði sig því á námskeiðið.

„Þarna er ég kominn upp í sveit, nýkomin úr vondu sambandi og vil alls ekki ást inn í lífið. Þá gerist það. Þá kemur hún inn í lífið, kemur á þetta námskeið og ég var náttúrulega professional, tala ekkert við hana, en býð henni í kaffi þegar námskeiðið er búið. Við hittumst í kaffi í desember 2007 og höfum eiginlega verið saman síðan.“

Einfalt líf en líkamlegt gjaldþrot

Árið 2008 fluttu þau til London til að fara í framhaldsnám og þar átti Guðmundur eftir að upplifa líkamlegt gjaldþrot.

„Lífið mitt hafði ekki verið svona einfalt í mörg mörg ár. Ég var aftur í skóla, og þurfti að mæta í skóla, ég var á námslánum og þurfti að borga leiguna og hjólaði í skólann. Þetta var eins auðvelt líf og það gat orðið. En mér leið ekkert betur.

Ég er í grunninn eins og þessir menn í mínum ættum sem verst hafa farið út úr áfengi, listrænn, viðkvæmur, harður, harður við sjálfan mig og geng hart að mér. Þannig ég var þarna dýrvitlaus í London, öskrandi á fólk í umferðinni og þangað til ég bara svona konunglega og líkamlega krassa. Ég var lagður inn á spítala og greinist með óútskýranlegar sýkingar um allan líkama og fer í allskonar meðferðir og rannsóknir.“

Læknum tókst með herkjum að lækna Guðmund líkamlega, en líðanin varð ekkert betri. Þá var honum bent á að líta inn á við og skoða andlegu hliðina. Hann átti bæði fjölskyldu og vini sem höfðu góða reynslu af 12 spora samtökum svo hann mætti á sinn fyrsta AA-fund.

„Skömmin og stoltið í mér var svo rosalegt að ég hugsa að ég hefði ekki gert þetta á Íslandi. Jafnvel í London þar sem enginn þekkti mig er þetta það erfiðasta sem ég hef gert að rétta upp hönd og segja: Hæ ég heiti Gummi og ég er alkóhólisti.“

Fannst ekkert sorglegra en miðaldra AA-menn

Hausinn var þó ekki alveg kominn á réttan stað og hann var ekki tilbúinn að helga sig sporunum. Tveir sponserar gáfust upp á honum og Guðmundur var enn að berjast við sjálfan sig.

„Svo fann ég að ég þyrfti að gefast alveg upp fyrir þessari hugmynd um sjálfið og egóið. Og þetta var eitthvað sem ég ætlaði aldrei að gera. Mér fannst ekkert sorglegra heldur en miðaldra AA-menn. Sem voru alltaf bara svona sáttir við lífið og allt var bara fínt. Þetta er mjög fyndið en ég þoldi þá ekki. Það er mikil satíra í þessu því ég var svo reiður og stoltur og ætlaði einhvern veginn aldrei að gefast upp.“

Svo einn daginn fékk hann opinberun þegar hann var að hjóla heim til sín.
„Þá fæ ég þessa uppljómun, æðri máttur var mættur, og ég bara stökk af hjólinu mínu fór á hnén og þakkaði honum fyrir og eftir þetta hef ég aldrei litið um öxl eða efast og fór í þessa vinnu á fullu.“

Hann fór í gegnum AA-samtökin, svo næst í sporasamtök meðvirka, bæði Al-Anon og Coda. Svo endaði hann í samtökum ástar- og kynlífsfíkna sem átti eftir að reynast honum best.

„Ég hélt alltaf eins og mjög margir að í samtökum ástar og kynlífsfíkla væru bara pervertar og glæpamenn. En þau er svo sannarlega ekki það. Þetta mikið af fólki sem hefur átt í erfiðleikum í samböndum, markaleysi, klámfíkn eða fólk sem hefur átt við alvöru kynlífsfíkn að stríða.“

Óheilbrigð ást

Hann áttaði sig á því að hann hafi leitað í óheilbrigð sambönd á röngum forsendum. Sambönd hafi einkennst af markaleysi og þar sannaði sig að líkur sækir líkan heim.

„Auðvitað finnum við hvert annað. Fólk sem er að leita að einhverju öðru en heilbrigðu ástarsambandi, leita að einhverjum sem bjargar þeim , gerir það heilt. Fólk sem er með einhvers konar fíknisjúkdóm sem ætlar að lækna hvert annað, bjarga, Ég var svolítið þannig. Mig langaði að vera bjargvættur. Og náttúrlega eins og margir karlmenn fer út í lífið með einhverja skrítna blöndu af hugmyndum um karlmennsku úr einhverjum vestra myndum, Rocky og svoleiðis í bland við að vera alinn upp í samfélagi þar sem var töff að vera hestamaður og drekka, svona alpha-male samfélagi og svo hugmyndir úr rómantískum myndum, klámi og svona um konuna sem þurfti aðeins að vinda ofan af. En fyrst og fremst hjálpaði þetta mér gríðarlega því á þessum tíma, 2011 sem ég fer inn í SLA, þá er ég giftur og kominn með barn og þurfti bara hjálp við að læra að vera skilningsríkur og umhyggjusamur eiginmaður og faðir. Þar sem hjónabandið var kannski ekki lengur í fyrsta sæti því það var komið barn.“

Þarna tókst honum að takast á við eirðarleysið og óþreyjuna sem hafði einkennt lífið, þessi þrá í trylling. Að lifa hratt og deyja ungur.

Hlusta má á viðtalið við Guðmund og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?
Fókus
Í gær

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld
Fókus
Í gær

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“

Gefur Bríet falleinkunn fyrir tónleika – „Stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið“
Fókus
Í gær

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Elísabet Reynis um Ozempic – „Mitt svar er einfalt og hreint NEI!“

Elísabet Reynis um Ozempic – „Mitt svar er einfalt og hreint NEI!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu