A landslið kvenna er mætt til Salzburg og hefur hafið þar æfingar í undirbúningi liðsins fyrir tvo leiki gegn Austurríki.
Leikirnir eru liður í undankeppni EM 2025, en lokakeppnin fer fram í Sviss sumarið 2025. Liðin mætast fyrst á Josko Arena í Ried Im Innkreis á föstudag og svo á Laugardalsvelli þriðjudaginn 4. júní.
Bæði lið eru með þrjú stig eftir tvo leiki, Ísland vann Pólland á Kópavogsvelli í apríl og tapaði gegn Þýskalandi ytra á meðan Austurríki vann Pólland ytra og tapaði fyrir Þýskalandi heima.
Tvö efstu lið riðilsins fara beint áfram í lokakeppni EM 2025 á meðan hin tvö liðin í riðlinum fara í umspil um sæti þar.
Liðin hafa einungis tvisvar mæst, síðast 18. júlí 2023 þegar Ísland vann 1-0 sigur í Austurríki. Hinn leikurinn var á EM 2017 þar sem Austurríki vann 3-0 sigur. Þess má geta að þrír leikmenn sem voru í hóp Íslands á EM 2017 eru í hópnum í dag. Það eru þær Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen.
Leikur Austurríkis og Íslands föstudaginn 31. maí hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni útsendingu á RÚV.
Miðasala á leik Íslands og Austurríkis á Laugardalsvelli þriðjudaginn 4. júní er hafin á tix.is, en leikurinn hefst kl. 19:30.