fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Segja leigjandann hafa valdið tjóni en voru of sein og sitja í súpunni

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. maí 2024 13:00

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér úrskurð í máli sem þrír leigusalar beindu til nefndarinnar. Leigusalarnir eiga saman íbúð sem þeir leigðu leigjanda nokkrum sem þeir sögðu hafa valdið tjóni á íbúðinni. Kröfðust þeir þess að nefndin myndi heimila þeim að halda eftir tryggingarfé en leigjandinn krafðist þess að leigusölunum yrði gert að endurgreiða honum tryggingarféð. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að þar sem kæra leigusalanna væri of seint fram komin bæri þeim að endurgreiða leigjandanum.

Í úrskurðinum segir að tímabundinn leigusamningur hafi verið gerður milli leigusalanna og leigjandans frá 1. ágúst 2022 til 31. júlí 2023 en um hafi verið að ræða endurnýjun á fyrri leigusamningum en upphaflega hafi leigutíminn hafist 20. júlí 2020.

Leigusalarnir tjáðu nefndinni að þeir hafi tilkynnt leigjandanum um þremur mánuðum fyrir lok leigutíma að leigusamningurinn yrði ekki endurnýjaður þar sem til stæði að selja íbúðina. Leigjandinn hafi upplýst nokkrum dögum fyrir lok leigutíma að hann myndi ekki skila íbúðinni og hafi leigusalarnir með ábyrgðarbréfi skorað á hann að skila íbúðinni. Áskoruninni hafi ekki verið sinnt og því hafi leigusalarnir höfðað útburðarmál á hendur leigjandanum fyrir héraðsdómi.  Í kjölfarið hafi komist á sátt þar sem leigjandinn hafi skuldbundið sig til að skila íbúðinni 15. ágúst 2023, sem hann hafi gert.

Óviðunandi ástand

Leigusalarnir tjáðu Kærunefnd húsamála að við skoðun þeirra á íbúðinni hafi óviðunandi ástand hennar komið í ljós. Þrifum hafi verið verulega ábótavant og blýantsteikningar verið á veggjum í svefnherbergi. Skrúfur og naglar hafi enn verið í veggjum og víða hafi verið límdir upp snagar með miklu magni af fljótandi lími sem erfitt hafi verið að ná af. Þá hafi skemmdir verið á borðplötu í eldhúsi. Umtalsvert vatn hafi verið á baðherbergi sem hafi lekið vegna óviðeigandi notkunar á vatnssprautu, sem hafði verið bætt við salerni án leyfis. Brunablettir hafi verið á parketi í stofu.

Nauðsynlegt hafi verið að skipta um gólfefni og borðplötu og lokaþrif hafi kostað um 50.000 krónur.

Með bréfi dagsettu 31. ágúst 2023 hafi leigusalarnir gert kröfu í tryggingarféð og skorað á leigjandann að mæta í úttekt á íbúðinni.

Úttekt hafi verið framkvæmd af óháðum skoðunarmanni og samkvæmt henni hafi miklar rakaskemmdir verið við sturtubotn, gólfefni hafi verið illa farið vegna rakaskemmda og vísbendingar verið um að sturtuhaus, sem hafi verið tengdur við tengikrana á salerni, hafi valdið þeim skemmdum.

Sátt hafi ekki náðst við leigjandann og krafan í tryggingarféð hafi verið gerð innan fjögurra vikna frá skilum íbúðarinnar og þeim sé ekki kunnugt um að leigjandinn hafi formlega hafnað kröfunni.

Lúin íbúð

Í úrskurðinum kemur fram að leigjandinn hafni því alfarið að hafa valdið tjóni á íbúðinni sem bæta verði með tryggingarfénu. Leigjandinn sagði íbúðina gamla en hún er í fjölbýlishúsi sem byggt var 1936 og frá upphafi hafi verið ljóst að þörf væri á endurbótum. Hann segist ítrekað hafa þurft að óska eftir lágmarksviðhaldi svo íbúðin yrði íbúðarhæf. Innréttingar hafi verið gamlar og slitnar eftir áralanga notkun.

Leki hafi til að mynda verið í sturtuklefa.

Þar sem leigusalarnir hafi tjáð honum að framkvæmdir væru fyrirhugaðar við lok leigutímans hafi hann ekki talið mikla þörf á þrifum en boðist til að greiða 25.000 krónur til að leysa ágreininginn.

Leigjandinn vísaði því á bug að hann hefði samþykkt kröfu leigusalanna um að halda eftir tryggingarfénu og benti á fjölmörg smáskilaboð, sem fóru á milli aðila málsins, því til staðfestingar. Honum hafi hins vegar verið ókunnugt um að hann yrði að hafna kröfunni með formlegri hætti en hann gerði.

Í athugasemdum leigusalanna við sjónarmið leigjandans segir meðal annars að hann hafi viðurkennt að gólfið á baðherbergi íbúðarinnar hafi verið blautt nánast allan sólarhringinn og talsverðar skemmdir þannig orðið á gólfi, hurðarkörmum, hurð og veggi. Þá hafi aldrei verið búið að nefna það við leigjandann, eins og hann hélt fram, að leigusalarnir ætluðu að gera íbúðina upp en þörf á framkvæmdum hafi fyrst komið í ljós eftir skil íbúðarinnar.

Of sein og þurfa að endurgreiða

Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála segir að íbúðinni hafi verið skilað 15. ágúst 2023 en með bréfi 31. ágúst hafi leigusalarnir gert bótakröfu á hendur leigjandanum sem nam tæplega 1,1 milljón króna og gert kröfu um að tryggingarfénu, 360.000 krónum, yrði ráðstafað upp í þá upphæð.

Með smáskilaboðum 18. september hafi leigjandinn ítrekað beiðni sína um að fá tryggingarféð endurgreitt. Þann 27. september hafi lögmaður leigusalanna lagt til að óháður aðili tæki íbúðina út og að aðilar málsins myndu reyna að leysa málið. Á það hafi leigjandinn fallist.

Nefndin segir það ljóst að leigjandinn hafi hafnað kröfu leigusalanna innan fjögurra vikna frá móttöku og þeim hefði því átt að vera ljóst að ágreiningur hafi verið um bótaskyldu hans.

Kæra leigusalanna hafi borist til nefndarinnar 30. október og hafi þá verið liðinn fjögurra vikna frestur sem húsaleigulög kveði á um. Það breyti engu þótt lögmaður leigusalanna hafi lagt til að aðilar myndu freista þess að ná samkomulagi. Kæran sé of seint fram komin og því sé kröfu leigusalanna um að fá að halda eftir tryggingarfénu hafnað og þeim því gert að endurgreiða leigjandanum féð, ásamt vöxtum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti