Viðskiptavinurinn var vægast sagt hneykslaður þegar hann skoðaði kvittunina og sá að hann hafi verið rukkaður 92 krónur aukalega til að hita upp bollakökuna sem kostaði 644 krónur.
Hann birti mynd af kvittuninni á Facebook sem fór eins og eldur í sinu um netheima.
„Fokking 92 krónur til að hita bollakökuna? Það er rugl eins og þetta sem lætur mann hrista hausinn og spyrja: Hvar endar þetta?“ skrifaði hann með færslunni.
„[Afgreiðslukonan] spurði hvort ég vildi láta hita kökuna. Það var kalt þennan morguninn í Melbourne, þannig af hverju ekki,“ sagði hann og bætti við að hann hafi ekki verið látinn vita að það kostaði aukalega.
„Þau bæta þessu bara við reikninginn án þess að láta þig vita.“
Færslan vakti mikla athygli en maðurinn eyddi henni stuttu síðar. Talsmaður kaffihússins ræddi við Daily Mail Australia og sagði að um mistök væri að ræða.
„Við rukkum ekki og höfum aldrei rukkað fyrir að hita upp gómsæta bakarísmatinn okkar,“ sagði hann.
Talsmaðurinn gagnrýndi einnig viðskiptavininn fyrir að hafa birt mynd af kvittuninni á samfélagsmiðlum og sagði að það hefði verið hægt að leysa ágreininginn í persónu. Hann sagði að eigandi kaffihússins hafi fengið morðhótanir vegna málsins.