Í umfjöllun Mail Online kemur fram að vísindamenn hafi búið til frumur sem finnast í briskirtlinum og stuðla að myndun insúlíns og halda blóðsykrinum í jafnvægi.
Maðurinn hafði verið með sykursýki í 25 ár og þurft á lyfjum að halda á hverjum degi. Er talið að þetta sé fyrsta tilfellið þar sem einstaklingur læknast af sykursýki.
Vísindamenn segja að þetta dæmi gefi góða von upp á framhaldið.
„Ég held að þessi niðurstaða sýni vel þær framfarir sem hafa orðið í stofnfrumumeðferðum fyrir sykursjúka,“ segir Timothy Kieffer, prófessor við University of British Columbia í Kanada, í samtali við South China Morning Post. Tekið er fram að Timothy hafi ekki verið í hópi þeirra vísindamanna sem tóku þátt í rannsókninni.
Óvíst er þó hvort eða hvenær hægt verður að bjóða upp á meðferðina fyrir þá fjölmörgu sem þjást af sykursýki. Gera þarf rannsóknir á fleiri sjúklingum og ef vel tekst til finna út leið til að hraða ferlinu þar sem stofnfrumumeðferðir eru afar tímafrekar og dýrar.