Auglýsingastofan SAHARA hefur sett upp mælaborð sem fylgist með því í rauntíma hvað frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að gera á Google, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
Mælaborðið, sem er beintengt við gögn hjá Google og Meta, er öllum aðgengilegt á slóðinni sahara.is/kosningar24.
Í fréttatilkynningu kemur fram að auk samanburðar á því hve miklu fé frambjóðendur verja í auglýsingar á miðlum Meta, sýnir mælaborð SAHARA meðal annars upplýsingar um þróun á fjölda fylgjenda allra frambjóðenda á samfélagsmiðlum og hvernig áhugi er á viðkomandi, byggt á leitum í leitarvél Google, og gefur þannig að einhverju leyti vísbendingar um vinsældir eða óvinsældir frambjóðendanna.
SAHARA er auglýsingastofa sem veitir fyrirtækjum heildstæða þjónustu í stafrænni markaðssetningu. „Sérfræðingar Sahara hreykja sér af því að vera gagnadrifin og tóku því saman þetta mælaborð til að fylgjast með helstu gögnum í kringum samfélagsmiðla og Google í aðdraganda forsetakosninganna. Við tókum saman sambærilegt mælaborð í síðustu alþingiskosningum og sáum okkur leik á borði að endurtaka þann leik og vonum að almenningur hafi fyrst og fremst gaman af þessu,” segir Andreas Aðalsteinsson, yfirmaður stafrænnar deildar og partner hjá SAHARA.