Daily Mail hefur eftir farþegum sem voru í fluginu að mikið uppnám hafi verið meðal farþega sem töldu að þeirra síðasta stund væri jafnvel runnin upp. Lýsa þeir því að flugfreyjur og flugþjónar um borð hafi kastast upp í loft og farþegar sem ekki voru spenntir í belti hafi kastast úr sætunum sínum.
„Það var mikið uppnám um alla vél. Sumar flugfreyjurnar voru með áverka á höfði og að minnsta kosti ein var með skurð á handleggnum,“ segir Emma Rose Power sem var um borð í vélinni.
Eileen, annar farþegi, sagði við írska ríkisútvarpið, RTE, að hún hafi aldrei lent í öðru eins. Maðurinn hennar, Tony, náði að halda henni niðri og koma þannig í veg fyrir að hún kastaðist úr sætinu sínu þar sem hún svaf án þess að hafa beltið spennt.
„Þetta var mjög óhugnanlegt. Ég mun ekki flýta mér aftur um borð í flugvél, það get ég sagt þér,“ segir Eileen.
Atvikið um borð í Qatar Airways gerðist örfáum dögum eftir óhugnanlegt atvik um borð í flugvél Singapore Airlines þar sem einn farþegi lést og um hundrað slösuðust.