Erik ten Hag, stjóri Manchester United, segir að allt hafi verið í rugli er hann tók við liðinu fyrir um tveimur árum.
Ten Hag er talinn vera á förum frá enska félaginu en hann hefur unnið tvo titla á þessum tveimur árum eða deildabikarinn og enska bikarinn.
Seinni titill Ten Hag kom í gær en hans menn höfðu betur gegn Manchester City á Wembley og spiluðu einn sinn besta leik á tímabilinu.
Hollendingurinn er viss um að hann hafi gert flotta hluti með liðið hingað til en meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn allan vetur.
,,Þegar ég tók við þá var allt í rugli hjá Manchester United,“ sagði Ten Hag við blaðamenn.
,,Liðið er að vinna titla í dag og hugmyndafræðin er skýr en þú þarft að vera með leikmenn sem eru leikfærir.“
,,Síðasta áratug hefur félagið ekki spilað svo marga úrslitaleiki og ekki unnið marga titla og ekki verið með eins marga efnilega leikmenn.“