Baerbock hvatti bandalagsríki Úkraínu til að senda fleiri loftvarnarkerfi til landsins þar sem Rússar láti flugskeytum og sprengjum rigna yfir landið þessar vikurnar.
Þjóðverjar hafa lagt drjúgt af mörkum í hernaðaraðstoð við Úkraínu, aðeins Bandaríkjamenn hafa verið rausnarlegri.
Reuters hafði eftir heimildarmanni innan þýska stjórnkerfisins að Þjóðverjar ætli að verja 3,8 milljörðum evra til viðbótar í hernaðarstuðning við Úkraínu á þessu ári. Áður höfðu þeir eyrnamerkt 7,1 milljarða evra til kaupa á vopnum og skotfærum á þessu ári. Bild skýrir frá þessu.
Fjármálaráðuneytið hefur nú þegar farið fram á að 15 milljörðum evra verði varið í hernaðaraðstoð við Úkraínu á næsta ári.