Hendrik Björn Hermannsson veitingamaður er látinn, 49 ára að aldri.
Hendrik var þekktur í veitingabransanum sem þjónn og veitingamaður til áratuga. Síðustu ár rak hann fyrirtækið H veitingar, sem annaðist veisluþjónustu og rak veislueldhús á Hvanneyri í Borgarfirði og í Reykjavík. Hann rak áður meðal annars Skólabrú, Players í Kópavogi, Grillið á Hótel Sögu og 59 Bistro Bar.
Stuttu fyrir andlátið birti hann færslu á Facebook þar sem hann óskaði vinum sínum gleðilegrar hvítasunnuhelgar, sagðist opna á Brúarási í Borgarnesi í byrjun júní og hlakka til að taka á móti gestum þar.
Hendrik varð bráðkvaddur, hann hneig niður um hádegi á mánudag og tókst ekki að hnoða í hann lífi en sjúkrabíll fór með hann til móts við sjúkraþyrlu að því er Vísir greinir frá.
Hendrik skilur eftir sig soninn Benedikt sem fæddur er árið 2000. Hendrik var sonur Kristínar Benediktsdóttur og Hermanns Gunnarssonar, Hemma Gunn, hins ástsæla sjónvarpsmann sem lést árið 2013.