Vélin var búin að vera níu klukkustundir í loftinu þegar ókyrrðin gerði vart við sig og var vélinni lent í Bangkok í Taílandi í kjölfarið. Einn Íslendingar var um borð í vélinni að því er fram kemur í frétt AP. Vísir sagði frá því í gær að borgaraþjónusta ráðuneytisins væri með málið á sínu borði.
Talið er að maðurinn sem lést hafi fengið hjartaáfall í hamaganginum um borð en breska blaðið Daily Mail segir frá því að hann hafi verið á ferð með eiginkonu sinni, Lindu, í sex vikna ferðalag. Átti ferðalagið að verða þeirra síðasta „stóra ferðalag“ á lífsleiðinni.
Kitchen, sem var eiginmaður, faðir og afi, var fyrrverandi tryggingasölumaður auk þess sem hann leikstýrði söngleikjum hjá Thornbury Musical Thetre-hópnum. Hafa vinir lýst honum sem afar ljúfum ævintýramanni. Voru hjónin á leið í ferðalag um Asíu og Ástralíu þegar atvikið varð.
Farþegar hafa lýst mikilli skelfingu um borð og segja að vélin hafi skyndilega fallið hratt niður. Margir farþegar voru ekki með sætisbeltin spennt og köstuðust sumir úr sætunum. Alls þurfti 71 á læknisaðstoð að halda og eru margir þeirra með höfuðáverka eftir að hafa kastast upp í loftið fyrir ofan sætin.