Tilvist hans og lögun vekja upp efasemdir um þá þekkingu og skilning sem við höfum á alheiminum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá University of Central Lancashire að sögn Videnskab.dk.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að í einföldu máli sagt þá eigi efni að dreifast nokkuð jafnt í miklu magni ef miðað er við þann skilning sem við höfum á alheiminum. Það eigi ekki að geta safnast saman eða ekki safnast fyrir á ákveðnum svæðum.
En The Big Ring hegðar sér ekki þannig, alls ekki. Það sem gerir málið enn flóknara er að þetta er annar hringurinn af þessu tagi sem fundist hefur á nokkrum árum.
Sami hópur stjörnufræðinga uppgötvaði The Giant Arc, stóra bogann, árið 2021. Þetta er risastórt svæði sem er næstum jafn langt frá jörðinni og The Big Ring og minnir að miklu leyti á hann.
Þessi tvö svæði valda vísindamönnum ákveðnum höfuðverk að sögn Alexia Lopez, sem er aðalhöfundur beggja rannsóknanna. Hún segir að erfitt sé að útskýra tilvist og tilurð þessara svæða út frá núverandi skilningi okkar og þekkingu á alheiminum.
Bæði svæðin brjóta einnig gegn annarri grundvallarreglu vegna stærðar sinnar. Útreikningar hafa sýnt að fræðileg mörk eru á hversu stórir hlutir af þessu tagi geta orðið og eru þessi mörk 1,2 milljarðar ljósára en báðir hlutirnir eru miklu stærri.