Reuters segir að það sem hreki Rússana úr landi séu meðal annars síhækkandi framfærslukostnaður og vandamál við að fá búsetuleyfi. Er þetta byggt á viðtölum við níu rússneska ríkisborgara og aðgengilegum gögnum.
Tyrkland, sem er NATÓ-ríki, var eins og segull fyrir marga Rússa eftir að stríðið braust út. Voru vinsælustu áfangastaðirnir Istanbúl og Antalya.
Sumir voru á móti innrásinni en aðrir voru að reyna að komast í skjól með fyrirtæki sín vegna refsiaðgerða Vesturlanda gegn Rússlandi, þar á meðal vegna ferðabanns á Rússa sem geta illmögulega ferðast til flestra Evrópuríkja. Sumir voru einnig að forðast að vera kallaðir í herinn.
Nú í maí voru 96.000 Rússar búsettir í Tyrklandi og hefur fækkað úr 154.000 í árslok 2022 samkvæmt opinberum tölum.
Margir hinna brottfluttu hafa flutt sig um set til Serbíu og Svartfjallalands og nokkurra annarra Evrópuríkja sem Rússar geta enn farið til.