People segir að Djibril Diol, 29 ára, Adja Diol, 23 ára og 22 mánaða dóttir þeirra hafi látist í eldsvoðanum. Systir Djibril og ung dóttir hennar létust einnig. Þrennt komst lifandi út úr húsinu.
Í tilkynningu frá saksóknara í Denver í Colorado segir að Bui eigi 60 ára fangelsi yfir höfði sér en dómur yfir honum verður kveðinn upp í byrjun júlí.
Hann er einn þriggja manna sem hafa játað að hafa kveikt í húsi í Green Valley Ranch í ágúst 2020 en þar bjuggu fyrrnefndir fimmmenningar.
People segir að Bui hafi skipulagt íkveikjuna og hafi fengið hjálp frá tveimur vinum sínum. Hann taldi að íbúar hússins hefðu stolið farsíma hans í júlí þegar viðskipti með fíkniefni fóru fram. Hann taldi að fólk, sem hafði áður stolið frá honum, ætti heima í húsinu og fór því og kveikti í því.
Bui var handtekinn í janúar 2021 eftir að lögreglunni hafði tekist að staðsetja hann og vitorðsmenn hans á brunavettvanginum.
Vitorðsmennirnir hafa þegar verið dæmdir. Annar var dæmdur í 40 ára fangelsi og hinn í þriggja ára vist á ungmennafangelsi og sjö ár í ríkisfangelsi fyrir unga fanga.