Konan, sem er 72 ára, hafði eytt nokkur hundruð dollurum í spilakassa í tækjasalnum þegar hann gaf merki þess efnis, með ljósum og háværum hljóðum, að hún hefði unnið tvöfaldan gullpott, upphæð sem nemur 355 milljónum króna.
Ekki leið á löngu þar til öryggisverðir komu aðvífandi og tjáðu konunni að kassinn væri bilaður og hún hefði í raun og veru ekki unnið neitt. Starfsmaður spilavítisins opnaði kassann, ýtti á einhverja takka áður en hann bauð konunni 350 dollara í bætur fyrir óþægindin.
Í frétt New York Post kemur fram að konan hafi neitað þessu og krafist þess að fá alla upphæðina greidda. Það gekk ekki og hefur konan því höfðað mál.
„Þeir opnuðu kassann áður en nokkur hafði tækifæri til að skoða hann – og eyddu mögulega einhverjum sönnunargögnum,“ segir lögmaður konunnar. Hann hefur kallað eftir því að framleiðandi kassans verði fenginn til að leggja mat á það hvort einhver bilun hafi átt sér stað. Þá hefur hann kallað eftir því að fá upptökur úr öryggismyndavélum spilavítisins.
Það sem gefur konunni von í málinu er að dómafordæmi í sambærilegu máli frá árinu 2000 er til staðar. Þá fór maður sem taldi sig hafa unnið 1,3 milljónir dollara í spilakassa í mál við spilavíti sem neitaði að borga honum. Dómur féll manninum í vil.