Þróttur R. dróst á móti Aftureldingu í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag. Ólafur Kristjánsson, þjálfari fyrrnefnda liðsins, var brattur þegar hann ræddi við 433.is eftir dráttinn.
„Þetta er dráttur í bikar og þú getur fengið allt. Þetta er hörkulið, unnu Víking í síðustu umferð. Ég sá þær aðeins í vor. Þetta er flott lið og mjög verðugir andstæðingar,“ sagði Ólafur, en Afturelding spilar í Lengjudeildinni á meðan Þróttur er í þeirri Bestu.
Þróttur er aðeins með 1 stig í Bestu deildinni þrátt fyrir fínar frammistöður. Hvernig getur liðið farið að safna stigum á töfluna?
„Með því að halda áfram að bæta okkur í því sem við trúum á að eigi að vera okkar stíll. Ef þú byrjar að rugla of mikið og leita að alls konar hlutum lendirðu í ógöngum. Við þurfum að bæta það að nýta færin okkar og þá höfum við trú á að stigasöfnunin muni koma.
Það er hluti af starfi þjálfarans að sannfæra leikmennina um að sú vegferð sem þú ert á sé sú rétta. Það eru margar leiðir til Rómar og þú verður að velja eina og fara hana ótrauður,“ sagði Ólafur að endingu, en viðtalið í heild er í spilaranum.