Það má búast við því að Gylfi Þór Sigurðsson fari í myndatöku á næstunni til að taka stöðuna á bakmeiðslum sem hann hefur verið að glíma við.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, sagði frá þessu í samtali við 433.is í Laugardalnum í dag, en rætt var við hann í tilefni að drætti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Gylfi hefur farið vel af stað með Val en var ekki með í síðasta leik, bikarleik gegn Aftureldingu. Arnar sagði fyrir þann leik að hann hefði ekkert getað æft vegna bakmeiðsla og staðan hefur lítið breyst síðan.
„Hann er að basla í bakinu og hefur ekkert verið að æfa. Það er verið að skoða stöðuna. Ég held að planið sé að fara í myndatöku og skoða hlutina. Þetta er spurningamerki,“ sagði Arnar við 433.is.
Valur heimsækir HK í Bestu deild karla í kvöld en Gylfi verður ekki með í þeim leik vegna meiðsla sinna.
Hér að neðan má sjá viðtalið við Arnar, en þar var farið yfir víðan völl.