Skjálftinn í gærkvöldi er sá stærsti í áratugi en í fyrrahaust varð nokkuð öflug jarðskjálftahrina á svæðinu. Urðu skjálftar af stærðinni 4,2 og 4,0 í október síðastliðnum. Og í fyrrasumar vöruðu vísindamenn við því að eldgos væri hugsanlega yfirvofandi.
Eldgos á þessum slóðum eru sem betur fer fátíð en þegar þau verða geta þau verið stór og mikil. Síðast gaus í Campi Flegrei árið 1538 og eru vísindamenn margir þeirrar skoðunar að fjallið sé komið á tíma.
Eitthvað virðist hafa verið um tjón í skjálftanum í gærkvöldi og birtust til að mynda myndbönd á samfélagsmiðlum sem sýndu hvernig vörur hrundu úr hillum verslana í bænum Pozzuoli. Þá mynduðust sprungur í einhverjum byggingum. Skólar í Pozzuoli verða lokaðir í dag vegna skjálftans.
Íbúi á svæðinu segir að fólk í nágrenni eldfjallsins lifi í stöðugum ótta og hefur Daily Mail eftir viðkomandi að hann óttist að byggingar ráði illa við þessa stöðugu skjálftavirkni.
Vísindamenn telja ólíklegt að eldgos sé yfirvofandi í bráð en fjallið hefur áður sýnt samskonar virkni og nú. Á níunda áratug síðustu aldar voru jarðskjálftar tíðir í fjallinu en hrinan hætti án þess að til frekari atburða kæmi. En ef til eldgoss kæmi gætu 350 til 500 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín.