Tyrkir hafa ekki tekið þátt í keppninni síðan árið 2012 en þeir báru sigur úr býtum árið 2003, sama ár og Birgitta Haukdal flutti lagið Open Your Heart fyrir Íslands hönd.
Erdogan segir að keppnin vegi að „hefðbundnum fjölskyldugildum“ og ýtti undir „kynhlutleysi“. Tilefni þessara orða forsetans virðist hafa verið sigur Sviss, en kvárið Nemo keppti fyrir hönd landsins og vann glæstan sigur. Varð Nemo þar með fyrsta kvárið til að vinna sigur í keppninni.
Á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund sagði Erdogan að keppendur í Eurovision væru „trójuhestur samfélagslegrar siðspillingar“ og taldi réttast að Tyrkir héldu sig áfram frá keppninni. „Á svona viðburðum er ómögulegt að hitta venjulega manneskju,“ sagði hann.
Erdogan er umdeildur á Vesturlöndum og hefur margoft talað gegn réttindum kvenna og hinsegin fólks.