AP segir að í viðtali við íranska ríkissjónvarpsstöð í gær hafi Zarif sagt að þyrlan, sem flutti forsetann, hafi verið gömul og það hafi vantað varahluti í hana. Ástæðan er að Bandaríkin hafa sett viðskiptabann á Íran og nær það meðal annars til sölu á varahlutum í loftför.
Sagði Zarif að með þessu komi Bandaríkin í veg fyrir að íranskur almenningur geti notið góðra samgangna í lofti.
Hossein Amir-Abdollahiani, utanríkisráðherra, fórst einnig í slysinu. Það átti sér stað í fjalllendi og var þykk þoka þar yfir þegar slysið varð en ráðherrarnir voru á heimleið eftir heimsókn í Aserbaísjan.
Íranska ríkisfréttastofan IRNA segir að þyrlan hafi verið af gerðinni Bell 212. Þetta er útgáfa af hinni þekktu Bell 212 Twin Huey herþyrlu sem Bandaríkjaher notaði mikið í Víetnam stríðinu. Bell 212 er ætluð til almenningsnota. Þyrlur af þessari tegund hafa verið í notkun síðan á sjöunda áratugnum.
IRNA segir að Íranir hafi keypt þyrluna í byrjun aldarinnar og hafi hún verið mikið notuð síðan. En vegna viðskiptaþvingana Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda er skortur á varahlutum í þyrlur og flugvélar í Íran.
Írönsk yfirvöld hafa ekki gefið út neina yfirlýsingu um hvað hafi valdið slysinu en Zarif er ekki sá eini sem bendir á varahlutaskortinn sem hluta af ástæðunni.
Cedric Leighton, hernaðarsérfræðingur og fyrrum ofursti í flughernum, sagði í samtali við CNN að hann telji að það hafi verið samspil veðurs og viðskiptaþvingana sem hafi valdið slysinu.
Zarif var mun beinskeyttari í orðum sínum og sagði að slysið muni bætast við listann yfir glæpi Bandaríkjanna gegn írönsku þjóðinni.