Krefjandi að eiga barn með einhverfu – Tókst að kúpla sig út í þáttunum
„Það var ekkert annað áreiti og því náði ég algjörlega að kúpla mér út. Þar af leiðandi komst ég á réttan kjöl,“ segir Katrín Mörk Melsen þáttakandi í þriðju þáttaröðinni af Biggest Loser en hún segist hafa verið komin á endastöð þegar hún tók þá ákvörðun að taka þátt í keppninni. Hún er þriggja barna móðir en annar sonur hennar, Óliver, er einhverfur og uppeldi hans nokkuð krefjandi.
Í samtali við Vikudag segir Katrín að hún hafi farið upp í 131 kíló eftir meðgöngu yngsta barnsins og að andlega heilsan hafi verið „komin í þrot.“ „Ég trúði engan veginn á sjálfa mig. Ég var komin á frekar vondan stað. Ég var nýbúin að eignast lítinn dreng á þessum tíma, yngsta barnið okkar og átti fyrir mjög erfiðan dreng sem tók þessari nýjustu viðbót í fjölskylduna mun verr en við bjuggumst við.“ Hún segir að næsta eina og hálfa árið hafi verið „hrikalegt“ og þyngdist hún hratt vegna álagsins sem fylgdi óværu ungabarni og öðru barni sem tók regluleg skapofsaköst.
„Óliver handleggsbraut mig í einu skapofsakasti og ég fékk heilahristing í öðru. Hann tekur stól, eins og við sitjum í og kastar honum í mann. Hann er ótrúlega hraustur ungur drengur,“ segir Katrín jafnframt en sonur hennar fer nú hálfsmánaðarlega til stuðningsfjölskyldu. Að sögn Katrínar hefur það létt mikið undir með fjölskyldunni og gert gæfumun.
Hún segist hafa verið kominn á botninn áður en hún tók þátt í Biggest Loser. „Undir lokin þá var ég hætt að ráða við Óliver og hugsaði með mér: Þetta er 5 ára gamalt barn en ég ræð ekki við hann. Börnin mín öll eiga það skilið að ég geti tekið á aðstæðum og verið til staðar. Það hvatti mig áfram í að taka þátt.“
Hún segir að á meðan keppnin stóð yfir hafi hún getað útilokað áreiti og einbeitt sér að sjálfri sér. „Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta hefði endað ef ég hefði ekki fengið inngöngu í þáttinn. Ég er ekki viss um að ég hefði ég getað náð tökum á þessu ein,“ segir hún og bætir við: „Þó að þættirnir séu keppni um hver losni við flest kíló þá lagast engin vandamál eingöngu með því að léttast um 30 eða 40 kíló. Fólk sem er í mikilli yfirþyngd hefur oft eitthvað í farteskinu sem þarf að vinna úr og oft er matur mesta huggunin. Þannig að ef þú ferð í svona prógram og ætlar bara að léttast en ekkert að horfa inn á við, þá kemur þetta allt aftur og þú verður „game over“ eftir ár.“
Viðtalið við Katrínu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikudags