fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði
Mánudaginn 20. maí 2024 12:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hjó eftir því í umræðuþætti forsetaframbjóðenda á Stöð 2 fyrir helgi að Katrín Jakobsdóttir virðist upplifa sig sem fórnarlamb í þessari kosningabaráttu. Hún sagði það áhyggjuefni að þátttaka hennar í stjórnmálum hafi gert hana „geislavirka“, sem væri ósanngjarnt.

Vitaskuld er horft til starfsferils frambjóðenda til forseta þegar lagt er mat á þá. Í tilviki Katrínar er ekki að mörgu að taka, þegar kemur að starfsferli, öðru en stjórnmálaferli hennar. Í langri og rándýrri auglýsingu, sem birtist nokkrum sinnum á hverju kvöldi á RÚV, reynir hún vissulega að tína til annað en bara stjórnmálaferilinn. Þar kemur fram að hún hafi verið stigavörður í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, í árdaga þeirrar keppni.

Svarthöfði skynjar að Katrín misskilur það hvernig hún er dæmd út frá stjórnmálaþátttöku. Það er ekki þátttaka hennar í stjórnmálum sem slík sem gerir hana „geislavirka“ heldur er það arfleifð hennar úr stjórnmálunum sem veldur henni vandræðum. Með bros á vör gegndi hún ráðherraembætti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gaf innlendum og erlendum fjármálaöflum skotleyfi á íslensk heimili og fyrirtæki. Tíu þúsund fjölskyldur misstu þakið yfir höfuðið, fjölskyldur flosnuðu upp, hjónabönd brustu, framtíð ungmenna glataðist, margir örmögnuðust og tóku eigið líf en aldrei hvarf brosið af vörum Katrínar. En, hey, auðvitað er hrikalega ósanngjarnt að gera hana „geislavirka“ vegna stjórnmálaþátttöku.

Í næstum sjö ár hefur Katrín Jakobsdóttir stýrt ríkisstjórn sem hefur skilað þeim „árangri“ að verðbólga er hærri en í nágrannalöndunum og vextir meira en tvöfaldir. Greiðslubyrði íslenskra heimila af húsnæðislánum hefur í mörgum tilfellum meira en tvöfaldast. Allt stafar þetta af óráðsíu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar í ríkisfjármálum. Þessi ríkisstjórn hefur líka staðið vörð um gjafakvótastefnuna í sjávarútvegi og í vegi þess að þjóðareign á auðlindum verði tryggð í stjórnarskrá. Þetta hlýtur að teljast sérstakt á ferilskrá foringja íslenskra sósíalista.

Svarthöfði man ekki betur en að einhvern tímann hafi Katrín Jakobsdóttir verið harður herstöðvaandstæðingur og göngugarpur í Keflavíkurgöngum. Ekki er laust við að hann rámi í að stutt sé síðan hún lýsti andstöðu sinni við veru Íslands í Nató hér á heimavelli. Slíkur málflutningur er raunar bara til heimabrúks hjá forsetaframbjóðandanum vegna þess að sem forsætisráðherra hefur Katrín verið óþreytandi við að mæta á leiðtogafundi Nató og stilla sér upp með leiðtogum bandalagsins fyrir myndatökur við hvert tækifæri. Þá hefur hún einnig gefið út stórar yfirlýsingar sem fagna inngöngu nýrra ríkja í bandalagið sem hún segist, hér heima, vilja Ísland út úr.

Rifjað hefur verið upp að Katrín var ein þeirra sem kaus með því að draga Geir H. Haarde, einan, fyrir Landsdóm og vildi hann í fangelsi. Svarthöfði minnist þess ekki að hafa heyrt hana biðjast afsökunar á því eða lýsa sérstakri eftirsjá vegna þessa.

Ekki má gleyma því að það var Katrín Jakobsdóttir sem lagði fram frumvarpið um ótímabundna úthlutun sjóeldisleyfa til erlendra auðhringja rétt áður en hún sagði af sér embætti til að bjóða sig fram til forseta og lýsti því yfir að hún væri hætt í pólitík og vildi ekki tala um hana. Svarthöfði er hins vegar þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að leggja mat á Katrínu án þess að setja hennar pólitíska feril á vogarskálina – ekki þátttökuna í pólitík sem slíka heldur það sem hún gerði á sínum pólitíska ferli. Líkast til gefur það vísbendingu um það sem búast má við verði hún kjörinn forseti Íslands.

Svarthöfði heyrir út undan sér að margir velta því fyrir sér fyrir hvað Katrín Jakobsdóttir standi, hvaða hugsjónir og gildi séu leiðarljós lífs hennar.

Það vakti athygli Svarthöfða að í þættinum á Stöð 2 var Katrín spurð að því hvort einhver tröll væru á hennar vegum, sem hömuðust gegn öðrum frambjóðendum.

Svarið var svohljóðandi:

„Ég hef lagt á það áherslu við mitt stuðningsfólk, sko, þegar ég ákvað að gefa kost á mér þá gerði ég það vegna þess að mig langaði einmitt að eiga jákvæða, málefnalega baráttu sem snerist fyrst og fremst um að tala fyrir því sem ég stæði fyrir og alls ekki um þetta góða fólk sem er hér í framboði með mér, og mér sýnist nú að það hafi alveg bara gengið sæmilega þó að auðvitað segi fólk alls konar sín á milli, þá eru engin tröll á mínum vegum.“

Það var og. Vitaskuld var það þess vegna sem Katrín fékk Friðjón Friðjónsson, liðsforingja í skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins, til liðs við kosningabaráttu sína, til að skerpa á jákvæðum nótum hennar en ekki það sem hann hefur sérhæft sig í hingað til. Svarthöfða kemur ekki í hug eitt andartak að tilgangurinn hafi verið neinn annar. Og eflaust er það tilviljun ein að félagar Friðjóns, fulltrúar skrímsladeildarinnar á Morgunblaðinu, skuli sérstaklega þjarma að Höllu Hrund og Baldri Þórhallssyni sem hingað til hafa verið líklegust til að velgja Katrínu undir uggum. Þarna getur ekki verið neitt orsakasamband.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin