fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

„Litli Bjarni býr bak við hjartað í mér í djúpum gluggalausum helli“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. maí 2024 17:20

Bjarni Snæbjörnsson Mynd: Gunnlöð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Snæbjörnsson ólst upp á Vestfjörðum við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum. Það eina sem hann heyrði um aðra homma var að þeir væru öfuguggar og kynvillingar. Til að lifa af spilaði hann eftir þeim reglum sem hann taldi gilda en í leiðinni afneitaði hann sjálfum sér með öllum tiltækum ráðum.

Í bókinni Mennska sem kom út nýlega hjá Forlaginu segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfaskipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Hann lýsir á hispurslausan hátt ævintýralegri för um heiminn, erfiðum tímum, ástum og kynlífi, litlum og stórum sigrum í lífi og leiklist – ásamt áralangri sjálfsvinnu til að ná sátt við sína margbrotnu og litríku mennsku.

Mennska er aðgengileg og hrífandi lesning sem á erindi við alla sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, finnst erfitt að taka pláss í samfélaginu eða hafa fórnað hluta af sjálfum sér af ótta við viðbrögð annarra.

Í viðtali við K100 á fimmtudag viðurkennir Bjarni að upp­vaxt­ar­ár­in hans hefðu verið mun auðveld­ari ef hann hefði getað lesið bók sem þessa sem lít­ill strák­ur. „Eins og ég tek fram í sýn­ing­unni og í bók­inni þá var mitt stærsta „tráma“ að al­ast upp á Vest­fjörðum á ní­unda ára­tugn­um með eng­ar fyr­ir­mynd­ir. Ekki eina ein­ustu. Vit­andi ekki hvað það var annað en eitt­hvað ógeðslegt, það sem ég var. Það er sári sann­leik­ur­inn. Þess vegna verðum við að halda áfram að segja sög­ur og mæta. Ég trúi því inni­lega að við séum sem þjóð svo góð.“

Bókin  er byggð á leik­sýn­ing­unni Góðan dag­inn faggi sem sýnd var í Þjóðleik­hús­inu, víðs veg­ar um landið og á Fringe-hátíðinni í Edingborg í Skotlandi. Leik­sýn­ing­in hlaut góðar viðtök­ur og daginn eftir frumsýningu fékk Bjarni skila­boð frá rit­stjóra á For­laginu. „Hæ, ætti þetta efni kannski að vera bók?“ Bjarni játti því strax og minn­ist þess þegar hann skrifaði það í dag­bók­ina sína sem ung­ur strák­ur. „Þetta efni er byggt á dag­bók­inni minni og þegar ég er 21 árs þá skrifa ég ógeðslega mikið. Þá var ég að reyna að átta mig á sjálf­um mér og skildi ekki af hverju mér fannst þetta allt svona erfitt og svona. Þar velti ég fyr­ir mér af hverju ég sé alltaf að skrifa í dag­bók og að ég voni að einn dag­inn verði þetta bók,“ seg­ir hann og hlær.

Þó að bók­in sé byggð á sýn­ing­unni þá seg­ir Bjarni bók­ina mun ýt­ar­legri og öðru­vísi, enda annað list­form. Í ein­um kafla bók­ar­inn­ar birt­ir hann bréf á milli sín og móður sinn­ar á þeim tíma sem hann var að koma út úr skápn­um. „Ég legg alla tölvu­póst­ana til grund­vall­ar og þau eru öll þarna. Það er svo skýrt hvernig við erum að reyna að eiga við skömm­ina sem við skilj­um ekki og vit­um ekki hvernig við eig­um að fara í gegn­um sam­an. En þetta er allt þarna, allt í bók­inni.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Bjarna í heild sinni á K100.is.

Lestu fyrsta kaflann úr Mennsku hér fyrir neðan:

Litli Bjarni 

Örin segja sögu mína. Ekki sárin. 

Glennon Doyle 

 

Ég sit á teppalögðu stofugólfinu heima hjá Heiðbrá bekkjarsystur sem býr tveimur húsum frá mér á Tálknafirði. Við sitjum þarna 15 unglingar að fagna tólf ára afmæli hennar með snakkskálar á milli okkar. Í loftinu liggur ilmur af heimagerðum pítsum sem við höfðum fengið í kvöldmat. Á milli okkar ríkir vandræðaleg spenna. Við horfum kvik hvert á annað. Hormónarnir flæða. Eftirvænting. 

„Bjarni,“ segir Snævar vinur minn skyndilega, hann er smávaxinn, snöggklipptur og hláturmildur bekkjarbróðir. Hjartað tók kipp og ég segi lágt „já“. Snævar horfir glaðbeittur á mig og spyr „Létt, milt eða gróft“? Ég hika. Lít snöggt yfir hópinn. Augu allra hvíla á mér, sumir brosa og finnst þetta skemmtilegur leikur. Ég yppi öxlum um leið og ég segi „milt“ til að láta eins og ekkert sé. „Farðu í sleik við Sigríði“, segir hann. Ég horfði beint í augun á Sigríði Fjeldsted sem sat á móti mér í hringnum. Hún var einu ári yngri en ég, sæt, með hrokkið svart hár og freknur. Við vorum góðir vinir og höfðum oft leikið okkur saman. Gert símaat, farið í barbie og brennó. Ég set hendurnar fram fyrir mig og skríð varlega yfir gólfið í átt að henni. Hún gerir slíkt hið sama og við mætumst í miðjum hringnum milli snakkskálanna bæði á fjórum fótum eins og tvær kýr í haga. Eitt augnablik horfumst við í augu. Munnar okkar mætast og við kyssumst. Skyndilega stingur hún tungunni milli varanna á mér og tekur góðan þyrluspaða. Mér krossbregður. Ég býst ekki við þessu og finn bragð af stjörnusnakki. En ég svara í sömu mynt. Krakkarnir höfðu verið að fara í sleiki allt kvöldið og ég bara gerði eins.  

Þetta kvöld fór ég í minn fyrsta sleik, krjúpandi á fjórum fótum, umkringdur snakki og öllum mínum æskuvinum, á stofugólfinu heima hjá Heiðbrá. Eins og ráðvillt dýr með reigðan háls að berjast við eitthvað miklu stærra en tunguna í Sigríði Fjeldsted. 

 

Fram að þessu fékk ég að mestu að vera til óháð kynjareglum. Ég hafði leikið mér við hvern sem er, með hvað sem er á hvern þann hátt sem ég vildi. Ég var hæfileikaríkur, fyndinn, sannur, tilfinningaríkur, næmur, mjúkur, heiðarlegur, réttsýnn, skemmtilegur og samkynhneigður. Ég var saklaust og ljúft mannabarn sem var mjög tengt sinni eigin mennsku, sem þýðir að ég lifði nálægt mínu kjarnasjálfi (e. authenticity). Þannig er mennska mín kjarni þess sem ég er. 

Þegar unglingsaldurinn færðist yfir byrjaði ég að upplifa pressu um að ég þyrfti að vera einhver annar. Mér var strítt fyrir að leika við stelpurnar með barbie-dúkkur, dúkkulísur og blómálfa. Allt í einu breyttist fótboltinn úr því að vera skríkjandi og leikglaður krakkaskari í að vera hörkuleg barátta og strákarnir öskruðu á mig ef ég stóð mig ekki. Ég var lagður í einelti. Hjólinu mínu var rústað. Ég var kaffærður í snjónum í frímínútum. Það var hlegið að því hvernig ég dansaði stelpulega á diskótekunum. Ég var kallaður stelpustrákur og hommi eins og það væri það versta að vera. Mjúka og einlæga sjálfið mitt var ekki velkomið. 

Á þessum tíma ríkti aðeins þögnin ein um fólk eins og mig. Við virtumst ekki vera til í fallega firðinum mínum. Ég hafði aldrei hitt homma eða aðra hinsegin einstaklinga. Ég hafði aldrei heyrt talað um þá nema mögulega í sömu andrá og talað var um kynvillu og öfugugga. Þetta var bara eitthvað ógeðslegt og skammarlegt. Aldrei voru hinsegin persónur í skólabókunum, á bókasafninu eða í bókahillunum heima hjá mér. Ég sá þær heldur ekki í sjónvarpsþáttunum eða bíómyndum. Ég man aldrei eftir því að hafa heyrt um okkur í útvarpinu eða fréttunum. Það var hvorki talað um okkur í skólanum né í fjölskyldunni minni. Enginn sem ég þekkti var hinsegin á nokkurn hátt. Samt fæðist ég árið 1978 þannig að þegar við bekkjarsystkinin héldum upp á 12 ára afmælin okkar árið 1990 hafði alnæmisfaraldurinn þegar tekið fjölda lífa hinsegin systkina minna á Íslandi og um allan heim. Þegar leitað er að fyrirsögnum og fréttum frá níunda áratugnum um þessi mál þá fylgja þeim mikil skömm, fordómar og niðurlægjandi orðalag. Allt hefur þetta örugglega síast inn í barnshugann. Í öllu falli gegnsýrði þessi þögn og skömm gagnvart samkynhneigðum samfélagið allt. Ekkert okkar komst hjá því að verða fyrir áhrifum, hvorki ég, foreldrar mínir né samfélagið á Tálknafirði. 

Á sama tíma var aðeins gert ráð fyrir gagnkynhneigð minni. Ég heyrði svo oft: „Þegar þú munt eignast konu og börn …“ og „Áttu kærustu?“ og „Ertu skotinn í einhverri stelpu?“ Einu pörin sem ég sá voru karl og kona. Strákur og stelpa. Foreldrar allra vina minna voru karl og kona. Eina vitneskjan sem ég hafði um mögulega hamingjusamt líf var þannig að ég myndi eignast kærustu og svo myndum við gifta okkur og eignast börn.  

Til þess að lifa af skömmina yfir að vera sá sem ég var, sem og algera fjarvist á hinsegin fólki byrjaði ég að aftengjast sjálfum mér. Í barnslegri einlægni minni hélt ég að ég yrði að fela stóran hluta mennsku minnar með öllum tiltækum ráðum því hún væri svo ógeðfelld. Fyndni, sanni, tilfinningaríki, næmi, mjúki og heiðarlegi drengurinn byrjaði smám saman að klofna í tvennt. Í ljós kom hrætt og kvíðið hliðarsjálf sem hægt og örugglega tók völdin innra með mér. Þetta hliðarsjálf reyndi óttaslegið að lesa í allar aðstæður og hvernig það gæti komist hjá því að vera útskúfað. Eina markmið þess var að ljúga til um raunverulega sjálfsmynd okkar og samlaga okkur að samfélaginu. Til þess að tryggja utanaðkomandi samþykki afneitaði það hlutum af okkur sem myndu leiða til útskúfunar. Þetta nýja sjálf bældi niður mýktina, tilfinninganæmið og hinseginleikann. Það bannaði leikgleði og hispursleysi því þessir þættir gætu komið upp um okkur. Þungt lok var sett á tilfinningar okkar og þrár. Á sama tíma ýktust þeir eiginleikar sem fengu félagslegt samþykki eins og prúðmennska, dugnaður og kurteisi. Þetta nýja sjálf þvingaði mig til að taka ekkert pláss og þegja. Það neyddi mig til að ljúga og notaði kvíða og hræðslu til að ná sínu fram. Þetta hrædda hliðarsjálf kalla ég litla Bjarna.  

 

Litli Bjarni býr bak við hjartað í mér í djúpum gluggalausum helli. Þar hefur hann ríkt eins og fordekraður prins frá því tímabili þegar fyrsti sleikurinn átti sér stað. Hann klæðist snjáðum gallabuxum og allt of stórum, tættum bol. Fötin eru skítug og hanga utan á beinaberum líkamanum. Hann felur andlitið að mestu bak við þvældan og óþveginn lubba þannig að rétt skín í vökul augun sem eru alltaf í viðbragðsstöðu. Hann fer aldrei úr hellinum því það er of hættulegt. Það eina sem hann gerir er að hafa stanslaust augun á mér eins og dýr í hættu. Hverja einustu sekúndu fylgist hann með hvernig ég haga mér, hvað ég er að gera og segja. Þessi voldugi prins hefur aðeins einn tilgang; að passa upp á okkur, því hann treystir mér engan veginn til þess. 

Eina leiðin fyrir litla Bjarna til að upplifa sig öruggan er að stjórna mér og það gerir hann með því að hafa beinan aðgang að taugakerfinu mínu. Hellirinn hans er fullur af spottum, snærum og reipum sem tengjast klukkum og bjöllum taugakerfisins og hann hikar ekki við að láta mig vita þegar honum finnst ég vera að gera stórhættulega hluti. Á sínum tíma hélt hann okkur í skápnum með því að gangast við gagnkynhneigðum væntingum, þess vegna fór ég í sleik við Sigríði Fjeldsted og svo allar hinar vinkonur mínar sem unglingur. Að hans mati jafngilti það tortímingu að spila ekki með og samlagast.  

Í dag er hann enn til staðar og heldur uppteknum hætti þó ég sé löngu kominn út úr skápnum. Hann lætur á sér kræla ef ég ætla t.d. að tala um tilfinningar mínar eða taka pláss, þá rýkur hann leiftursnöggt til og togar í spottana til að læsa mér og þagga niður í mér. Stundum hringir litli Bjarni bara einni bjöllu og ég finn hvernig ég nötra smá og adrenalín flæðir um æðarnar eins og þegar ég ætla að voga mér að eiga erfitt samtal við makann minn. Stundum plokkar hann klukkustreng svo dögum skiptir til að koma skilaboðum sínum á framfæri og þá upplifi ég óskiljanlegan kvíða og sef mjög illa. Stundum skellur á með stórkostlegri taugakerfiskakófóníu þar sem hann gengur berserksgang og togar í alla spotta, kaðla og strengi í einu. Þá líður mér eins og ég missi stjórn á útlimum, öll skynfæri dofna og get ekki hreyft mig. Þá upplifi ég algert frost-eða-flótta viðbragð. Þegar litla Bjarna tekst best til þá dofna ég. Ég þegi og er kurteis og prúður. Ég tek ekkert pláss. Þá róast hann. 

Þetta samspil höfum við tveir átt í algerri ómeðvitund síðan ég var barn. Í skjóli ærandi þagnar um skammarlega tilvist hinsegin fólks leyfði ég honum að taka völdin svo að ég myndi lifa af. Smátt og smátt kom prinsinn sér fyrir í hásætinu og varð konungur yfir mínu eigin ríki og stórir hlutar af mér týndust einhvers staðar í dýflissunni. Ég hvorki kunni að hreyfa við mótbárum né heldur vissi ég hvernig öðruvísi lífið gæti verið. Þannig að ég gaf mig á vald litla Bjarna og varð samdauna lífi sem einkenndist af doða, kvíða og ótta.  

En með því að afneita þessum mikilvægum hlutum af mér þá fylgdu með margir aðrir mínir kostir. Ég afneitaði ekki aðeins hinseginleikanum mínum heldur líka tilfinningalegu innsæi og fallegu mýktinni. Fullorðna útgáfan af mér hefur reynt í gegnum tíðina að sækja til baka í dýflissuna fallegu kostina mína, að vera óafsakandi stoltur, berskjaldaður og kærleiksríkur. Það hefur skapað mjög stormasamt samband við litla Bjarna og mikla innri togstreitu. Að lokum, eftir fjörutíu ára innri baráttu sullaðist sannleikurinn loks upp á yfirborðið í ofsafengnu tilfinningalegu eldgosi þegar ég fékk taugaáfall.  

 Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir því hversu stórt rof hafði átt sér stað. Hversu mikið ég hafði í raun týnt sjálfum mér. Í kjölfarið tók við erfið og tímafrek uppgjörsvinna þar sem ég hætti að flýja sjálfan mig. Ég leitaði í fjöldann allan af gömlum dagbókum og bréfum sem ég var iðinn við að skrifa sem barn og unglingur og ég sat með öllu sem þar stóð. Í stað þess að kasta gömlum sársaukafullum mynstrum fyrir borð og afneita þeim hef ég þurft að læra að sitja með þeim. Ég hef þurft að kynnast mér upp á nýtt og endurforrita triggerandi minningar frá æsku og unglingsárum því oft blossa upp taugaviðbrögð innra með mér sem eiga við engin rök að styðjast í raunveruleikanum. Ég hef þurft að mæta öllum mínum tilfinningum, kostum, göllum, mynstrum og mennsku. Sem miðaldra karlmaður er ég enn að finna leiðir til að ná stjórn á lífinu aftur. Ég er enn að læra að þekkja sjálfan mig og vinda ofan af rótgrónum eyðileggjandi hegðunarmynstrum sem litli Bjarni hefur innleitt á þessum áratugum sem hann stjórnaði. Ég hef einnig lært að það að afneita sér með þessum hætti er hin eina sanna tortíming.  

Þetta hefur verið endurheimt lífs míns. Ég er loksins að kynnast sjálfum mér. Ég er farinn að skilja og elska sjálfan mig. Ég viðurkenni tilvist óttans og afneitunarinnar. Ég samþykki að innra með mér býr mikill sársauki og sorg. Að það sé brjálæðislega ranglátt að ég hef þurft að yfirgefa sjálfan mig til að lifa af. Ég finn fyrir reiði, heift og óréttlæti sem koma djúpt úr myrkum iðrum sálarinnar. En eina leiðin til að finna aftur ljósið í kjarnanum mínum er að viðurkenna tilvist myrkursins, þá þverrar vald þess yfir mér. Ég er smám saman að ná stjórn á mínu eigin lífi og það er ólýsanlega frelsandi 

Ég geri það með því að taka utan um þennan magnaða litla Bjarna sem var einstakt og dásamlegt barn. Á hverjum degi finn ég leið til að sameina okkur aftur í sama einstaklinginn sem lifir næst margbreytilegu mennsku sinni sem er uppfullur af tilfinningum, ljósi, myrkri og hugrekki. Ég sé sjálfan mig. Ég leyfi mér að tilheyra sjálfum mér. Ég sé að öll skömmin sem var innrætt hjá saklausu og dásamlegu barni var aldrei mér að kenna. Ég gerði ekkert af mér. Ég fæddist nákvæmlega eins og ég á að vera. Mín mennska er og hefur alltaf verið nákvæmlega eins og hún á að vera. 

 

Þessi bók er sagan okkar litla Bjarna. Þetta er sagan um hvernig hann varð til, hvernig ég hef lært að tala við hann og skilja hann. Við eigum hér gott, gefandi og erfitt samtal. Ég finn það skýrt í brjósti mér meðan ég skrifa þessi orð að hann nötrar af hræðslu. Hann vill að ég hætti við þessa fáránlegu hugmynd. „Af hverju ertu að taka þér svona mikið pláss?“ „Fólk mun hafna þér!“ „Alls ekki tala um tilfinningar.“ „Þessi bók mun tortíma okkur!!“ Þetta öskrar hann með tárin í augunum þar sem hann felur sig á bak við hjartað mitt og togar í nokkra spotta. Ég nötra smá í brjóstkassanum. Ég kjökra. 

Ég viðurkenni tilfinningar litla Bjarna. Ég hlusta á hann og það sem hann þarf að segja. Ég anda djúpt. Fullorðni ég hef lært að þó ég finni fyrir kvíða og ótta þá er allt í lagi með mig. Tilfinningar eru tímabundnar. Ég segi litla Bjarna hvað ég er óendanlega þakklátur fyrir hann. Hann hefur komið okkur í gegnum ótrúlega erfið tímabil og mikinn sársauka. Að þó hann hafi tekið allar ákvarðanir út frá ótta þá hjálpaði hann okkur eins og hann best gat, svo við myndum hreinlega lifa af. Ég segi honum líka að ég elski hann. Ég minni hann á að ég hef hingað til staðið mig vel í að passa upp á okkur. Að þó ég geri sögu okkar opinbera í þessari bók þá verður allt í lagi með okkur. Ég minni hann á að við höfum þegar sagt okkar sögu í gegnum söngleikinn Góðan daginn, faggi og við lifðum það af. Við meira að segja blómstruðum og við fundum mikilvægi þess að segja berskjaldaðan sannleikann. Því við höfum lært að okkar mennska er tilfinningarík, berskjölduð og með ríka tjáningarþörf – og þegar við lifum í mennskunni þá erum við ósigrandi.  

Litli Bjarni sefast aðeins. Hann tyllir sér út í horn í hellinum. Hann dregur sótugar lappirnar upp að brjóstinu og heldur utan um þær. Það eina sem ég sé af andlitinu eru augun undir tættum lubbanum sem gægjast upp fyrir hnén og fylgjast vel með mér. Í bili er hann kyrr og þögull. Hann leyfir mér aðeins að taka stjórnina og virðist treysta mér. En hann fylgist með hverri hreyfingu og hverju orði sem ég skrifa; tilbúinn að toga í kaðal og hrista í taugakerfinu við minnsta tækifæri. Ég held því áfram að slá á takkaborðið því sögu hinseginleikans míns þarf að segja. Mennska mín er auðvitað miklu víðfeðmari, en í hinseginleikanum liggur mín mesta togstreita og stærsta tráma.  

Þetta er sagan um hvernig litli Bjarni gat staðið af sér ótrúlega erfiðleika og harðræði á sinn mjúka og fallega hátt. Þetta er sagan um skömmina sem var innrætt hjá okkur og hvernig við erum enn að skila henni. Þetta er sagan um hvernig við heilum sárin okkar og hvernig ég vinn að því á hverjum degi að sameina okkur báða í margbrotna, óafsakandi og litríka mennsku. Heila mennsku.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ástæðan fyrir að Friends eru enn vinsælir 20 árum eftir lok þáttanna

Ástæðan fyrir að Friends eru enn vinsælir 20 árum eftir lok þáttanna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“