Síðustu tveir leikir 16-liða úrslita Mjólkurbikars karla fóru fram í kvöld.
Lengjudeildarlið Aftureldingar tók á móti Val í Mosfellsbæ og var það Jónatan Ingi Jónsson sem kom gestunum yfir snemma leiks. Andri Freyr Jónasson svaraði hins vegar fyrir heimamenn á 21. mínútu.
Eftir rúman hálftíma leik tóku Valsarar forystuna á ný. Þá skoraði Aron Jóhannsson. Staðan í hálfleik 1-2.
Eitt mark var skorað í seinni hálfleik en það gerði Adam Ægir Pálsson. Lokatölur 1-3 og Valur kominn í 8-liða úrslit.
Fram tók þá á móti ÍH og eins og flestir bjuggust við unnu heimamenn fremur öruggan sigur en gestirnir bitu frá sér. Viktor Bjarki Daðason kom Fram yfir um miðjan fyrri hálfleik og reyndist það eina mark hálfleiksins.
Már Ægisson tvöfaldaði forskotið snemma í seinni hálfleik og undir lok leiks skoraði Viktor sitt annað mark og innsiglaði 3-0 sigur.
Það verður dregið í 8-liða úrslit á þriðjudag.