Ofurhetjuteymin Avengers og Justice League eru ansi öflug. X-men og Guardians of the Galaxy eru ekki mikið síðri.
En hvernig yrði hið íslenska ofurhetjuteymi? DV bað forsetaframbjóðendurna um að nefna hvaða ofurhetjukraft þeir myndu vilja hafa. Miðað við svörin væri hægt að setja saman ansi öflugan hóp.
Kona hinna þúsund tungna
„Að geta skilið og talað öll tungumál?? Tungumál eru lykillinn að samskiptum sem eru forsenda þess að við getum skilið hvort annað, deilt hugmyndum og unnið saman?? Að geta talað við hvern sem er á hans móðurmáli væri held ég frábær og jafnframt gagnlegur ofurkraftur.“ – Halla Hrund Logadóttir.
Sér þinn huga
„Það væri hentugt að geta lesið hugsanir.“ – Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Græðararnir
„Væri til í að geta læknað fólk með snertingu.“- Jón Gnarr.
„Að geta læknað fólk.“ – Arnar Þór Jónsson.
„Lækna öll sár.“ – Baldur Þorhallsson.
Frú alls staðar
„Að geta verið á fleiri en á einum stað í einu, svo margt sem langar að upplifa og gera við mitt eina villta og verðmæta líf.“ – Halla Tómasdóttir.
Himna-Helga
„Ég væri til í að geta flogið það myndi spara heilmikin tíma og kostnað.“ – Helga Þórisdóttir.
Fljóta-Kata
„Ég væri til í að geta flust á milli staða – ekki viss um að það sé beinlínis ofurhetjukraftur en held að það geti verið gríðarlega þægilegt að hverfa af einum stað og birtast á öðrum!“ – Katrín Jakobsdóttir.
Svefnlausa-Steinunn
„Ég vildi að ég þyrfti aldrei að sofa.“ – Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.
Herra hlýddu mér
„Sannfæringar mátt.“ – Eiríkur Ingi Jóhannsson.
Hinn eini sanni Viktor
„Engann. Þeir hafa allir fleiri galla en kosti þegar rýnt er í þá nánar.“ – Viktor Traustason