Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar fyrir skömmu var tekin fyrir beiðni körfuknattleiksdeildar UMFN um fjárhagsstuðning. Kemur fram í fundargerð að deildin stríðir við mikla fjárhagserfðleika og hefur aðalstjórn UMFN orðið að hlaupa undir bagga með deildinni. Beiðni um fjárstuðning var engu að síður hafnað en í fundargerð segir:
„Hámundur Örn Helgason framkvæmda- og íþróttastjóri UMFN og Ágústa Guðmarsdóttir fjármálastjóri UMFN fylgdu úr hlaði erindi körfuknattleiksdeildar UMFN.
Þau gerðu grein fyrir fjárhagstöðu körfuknattleiksdeildar sem er afar erfið og hefur aðalstjórn UMFN þurft að lána deildinni fé á undanförnum mánuðum.
Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir áhyggjur félagsins en getur ekki orðið við erindinu sökum þess að það er ekki á fjárhagsáætlun ráðsins.
Íþrótta- og tómstundaráð vísar erindinu í bæjarráð.“