fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Ögmundur sár út í sinn gamla flokk: „Dapurlegra en orð fá lýst“

Eyjan
Föstudaginn 17. maí 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt það dapurlegasta sem gerst hefur á Íslandi er sú kúvending sem hefur orðið í afstöðu til hernaðarhyggju. Þetta er mat Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra.

Ögmundur skrifar athyglisverðan pistil um þetta á vefsíðu sína þar sem hann gagnrýnir meðal annars sinn gamla flokk, VG. Ögmundur sat á þingi fyrir flokkinn á árunum 2003 til 2016 og var meðal annars dómsmála og innanríkisráðherra á þeim tíma.

Hann segir að einhvers konar met hafi verið slegið í Reykjavík í fyrravor undir forystu ríkisstjórnar Íslands á ráðherrafundinum sem hér fór fram.

„Fluttir voru inn lögregluþjónar erlendis frá til að styðja íslensku lögreglumennina sem aftur voru látnir gista á hóteli í Reykjavík nærri fundarstað – einnig þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu – þegar „leiðtogar“ Evrópuráðsins kæmu saman til að ræða mannréttindamál í Reykjavík. Í engu skyldi sparað svo viðbragðsflýtir gæti orðið á sekúndubrotum. Gasgrímur munu hafa verið við höndina ef skyndiárás yrði gerð með eiturefnum.“

„Allt varð þetta þó skiljanlegra þegar í ljós kom að á þessum fundi stóð til að stíga stærsta skrefið hingað til svo gera mætti þennan samstarfsvettvang Evrópuþjóða um mannréttindamál að valdastofnun í þjónustu ríkisstjórna; að því sem á ensku kallast geopólitískri stofnun. Þetta var illa ráðið og gæti þá þýtt að samviskan hafi ekki verið upp á sitt besta hjá skipuleggjendum og þess vegna allur varinn góður.“

Ögmundur segir að sú kúvending sem orðið hefur hér á landi í afstöðu til hernaðarhyggju sé dapurleg.

„Stjórnmálamenn sem gáfu sig út fyrir að vera talsmenn friðar sneru algerlega við blaðinu í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs, opnuðu Ísland fyrir stórfelldri hervæðingu, fóru að kaupa og selja vopn og gera sig gildandi á meðal stríðshauka enda hlotið lof fyrir fylgispekt sína. Allir bjuggust við öllu af hálfu Sjálfstæðisflokks, ýmsu af hálfu Framsóknar en aldrei þessu af hálfu VG. Þess vegna er sá flokkur í sárum. Ef eitt er sagt og annað síðan gert í hverju grundvallarmálinu á fætur öðru tapast trúverðugleikinn. Hann ávinnst ekki á ný nema til komi gerbreytt stefna.“

Ögmundi líst ekki á blikuna og bendir til dæmis á samning sem ríkisstjórnin gerði við Varðberg um að kynna málstað NATO. „Nánast engin umræða hefur orðið um þessa fáránlega hlutdrægu ráðstöfun. Hvernig stendur á því? Ekki vil ég að mínir peningar gangi til þessa verkefnis og pólitíkin sem í þessu er fólgin finnst mér forkastanleg.“

Þá segir hann að Ísland sé allt í einu búið að fá varnarmálaráðherra.

„Og síðan fáum við að heyra nú að utanríkisráðherra Íslands sé farin að láta titla sig sem varnarmálaráðherra landsins þegar það þykir eiga við. Bjarni Benediktsson mun hafa byrjað á þessum nýja sið en allt er þetta táknrænt um hvert stefni með land okkar – illu heilli. Sjálfum finnst mér þetta vera dapurlegra en orð fá lýst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu