Þetta er ekki búið kæri lesandi. Eurovision söngvakeppnin hefur ekki lagst í dvala fram að næsta ári enda ekki öll kurl komin til grafar eftir eina dramatískustu keppni fyrr eða síðar. Nú hefur ónefndur aðili, sem segist hafa starfað fyrir keppnina, tjáð sig á TikTok um ástæðu þess að Hollandi var vísað úr keppninni þrátt fyrir að hafa komist upp úr undanriðlinum.
Keppandinn frá Hollandi, Joost Klein, hefur ekki staðfest hvaða atvik varð til þess að honum var vísað úr keppni. Samband evrópska sjónvarpsstöðva (EBU), sænsk yfirvöld og hollenska ríkisútvarpið hafa ekki farið nákvæmlega ofan í saumanna á málinu en það sem hefur komið fram er að Joost er sakaður um ógnandi hegðun í garð starfsmanns tengdum keppninni.
Fyrst töldu margir að um kynferðislega áreitni væri að ræða. Síðan var talað um árás á kvenkyns myndatökumann. Hollenska sjónvarpið þverneitaði því þó að Joost hafi ráðist á myndatökumanninn heldur hafi komið til ágreinings þegar Joost kom af stóra sviðinu eftir undanúrslitin á fimmtudeginum. Joost flutti lag sem fjallaði um foreldra hans, sem féllu frá þegar hann var ungur. Hann reiknaði því fastlega með því að vera meyr og í uppnámi að flutningi loknum. Hollenska sjónvarpið og Joost hafi því gert samkomulag við EBU um að Joost yrði hlíft við upptökum þegar hann kæmi af sviðinu. Þetta voru skýr mörk sem keppandinn setti og reiknaði með að yrðu virt. Honum var því brugðið þegar hann kom af sviði og mætti konu sem var að taka hann upp. Ekki ber sögum saman um hvort konan hafi verið með upptökuvél eða tekið upp á síma og ekki er ljóst hvað henni og Joost fór á milli.
Hollenska sjónvarpið hefur þó staðfest að Joost hafi brugðist við stöðunni með því að ítreka mörk sín og óska í tvígang eftir því að konan hætti að taka hann upp. Hún hafi ekki brugðist við óskum hans. Sumir segja að Joost hafi þá vikið sér að henni til að ýta símanum eða myndavélinni niður á gólf svo konan hætti að taka hann upp. Aðrar sögur segja að Joost hafi fært hönd sína að hálsi sínum og gert hreyfingu sem bæði megi túlka sem „hættu að taka upp“ eða sem tákn um að skera á háls.
EBU hefur sætt harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín í málinu. Á móti hefur verið bent á að samkvæmt sænskri sakamálalöggjöf er hart tekið á hótunum þar í landi. Málið sé á borði lögreglu sem taki rannsókninni alvarlega og gæti Joost átt yfir höfði sér ákæru.
@goviraluk What really happened BTS of Eurovision 2024 #Eurovision2024 #eurovision #esc #europe #joostklein #netherlands #nederlands #ireland #bambiethug #nemo #switzerland #european #greece #eurovisionsongcontest #eurovisiontiktok #foryoupage ♬ original sound – Go Viral UK
Nú hefur þó áðurnefndur aðili stigið fram á TikTok. Sá kveðst hafa starfað baksviðs og viti því hvað fór fram. Þessi aðili segir að myndatökumaðurinn hafi verið á vegum Ísrael. Teymið frá Ísrael hafi mætt til keppni með horn í síðu þeirra landa sem hafa gagnrýnt Ísrael fyrir stríð þeirra við Palestínu. Teymið hafi gagngert reynt að espa upp þessa andstæðinga sína og fá frá þeim viðbrögð.
„Þetta minnti mig í hreinskilni á stelpuhópa í unglingadeildum sem beita einelti, þessa hópa sem við sjáum í bíómyndum sem ráðast gegn öllum sem eru þeim ekki þóknanlegir,“ sagði starfsmaðurinn og tók fram að fulltrúar þó nokkurra landa hafi þverneitað því að leyfa ísraelskum sjónvarpsmönnum að taka þau upp. Ísraelskir tökumenn hafi virt óskir keppenda að vettugi og tekið þau upp í þeirra óþökk. Jafnvel þó að skipuleggjendur hafi komið óskum keppenda skýrt á framfæri.
Starfsmaðurinn fjallaði um framlag Íslands og sagði að einstaklingur frá Ísrael hafi gengið að konu sem var með íslenska teyminu á rölti um tónleikahöllina. Þessi einstaklingur hafi tekið íslensku konuna upp og spurt hana um umræðuna sem átti sér stað hér á landi um að Ísland myndi draga sig úr keppni út af Ísrael. Ísraelinn hafi fyrir mistök haldið að þessi kona væri á vegum Ríkisútvarpsins.
Fjöldi kvartana var lagður fram gegn ísraelska teyminu vegna framgöngu þeirra. Þessar kvartanir komu frá fulltrúa fjölda landa en skipuleggjendur hafi látið þær sem vind um eyru þjóta. Ekkert var gert til að stöðva áreitið.
„Allir voru komnir með nóg af stælunum í Ísrael á þessum tíma, og það snerist ekki einu sinni lengur um afstöðu þeirra til stríðsins. Það var meira sökum þess hversu ófagmannlega þau létu og hvernig þau voru að ögra öðrum teymum. Enginn vildi nokkuð af þeim vita, í hreinskilni, því þau voru bara svo svakalega dónaleg.“
Joost hafi sérstaklega óskað eftir því að vera ekki tekinn upp baksviðs. Fulltrúar allra sjónvarpsstöðva hafi virt þessa ósk, nema Ísrael. Myndatökumaður frá Ísrael tók á móti honum þegar hann kom af sviði og elti hann alla leið í græna herbergið og virti að engu óskir hans um að hún hætti.
„Hann bað hana um að hætta, en hún gerði það ekki, hann hélt áfram að biðja og áfram brást hún ekki við. Svo hann snappaði á hana. Ég vil að það komi skýrt fram að hann snerti hana aldrei.“
Joost var á leið inn í græna herbergið og þarna fékk hann nóg. Hann stoppaði, sneri sér að konunni og steig í átt að henni.
„Ég veit ekki alveg hvað var sagt svo ekki vitna beint í mig, ég var ekki þarna, en miðað við það sem ég hef heyrt þá sagði hann eitthvað á borð við hættu að taka mig fokking upp og svo hótaði hann að brjóta myndavélina.“
Sænska lögreglan sagði við Guardian að Joost verði að líkindum ákærður fyrir hótanir. Starfsmaðurinn ónefndi telur að EBU hafi brugðist alltof harkalega við miðað við aðstæður og séu viðbrögðin sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að teymið frá ísrael fékk að áreita aðra keppendur stöðugt án nokkurra afskipta.
@goviraluk PART 2 – What really happened backstage at Eurovision 2024 #fy #fyp #foryou #foryoupage #fypシ゚viral #foryourpage #eurovision #Eurovision2024 #behindthescenes #backstage #joostklein #netherlands #ollyalexander #bambiethug #ireland #eurovisionsongcontest #esc #ebu #scandal #lithuania #poland #nemo #switzerland #eurovisiontiktok ♬ original sound – Go Viral UK