Jurgen Klopp, stjóri Liverpool myndi kjósa með því að hætta með VAR tæknina í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir þá sem sjá um VAR á Englandi ekki hafa hæfni í það.
Það er ólíklegt að félög ensku úrvalsdeildarinnar muni samþykkja tillögu Wolves um að segja skilið við myndbandsdómgæslu, VAR, frá og með næstu leiktíð.
Í fyrrdag kynnti Wolves tillögu sína um að hætta með VAR þar sem það hafi slæm áhrif á leikinn. Tæknin var tekin upp í ensku úrvalsdeildinni 2019 en hefur þótt umdeild.
Fjórtán félög af tuttugu í ensku úrvalsdeildinni þurfa að samþykkja tillöguna svo hætt verði með VAR en það er ólíklegt að svo verði.
Liverpool er eitt þeirra félaga sem er sagt ætla að fella þessa tillögu en Klopp myndi ekki gera það.
„Hvernig tæknin er notuð er klárlega ekki rétt, hvernig þetta er gert. Ég myndi kjósa með því að hætta með VAR,“ segir Klopp sem hættir með Liverpool á sunnudag.
„Fólkið getur ekki gert þetta almennilega, VAR er ekki vandamálið sjálft. Þú getur ekki breytt fólkinu, ég myndi kjósa með því að hætta með VAR.“